150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma með örstutt innlegg og byrja á því að segja að það er mikið fagnaðarefni að við séum að ljúka lagasetningu um 12 mánaða fæðingarorlof. Umræðu um nákvæma skiptingu er greinilega ekki lokið en það sem öllu skiptir er að sú breyting sem á að taka gildi um áramótin hefur verið ákveðin. Við höfum tíma til að klára hitt atriðið og við megum ekki tapa sjónum af því sem er aðalatriðið sem er 12 mánaða fæðingarorlof nátengt lífskjarasamningunum. Í því samhengi bendi ég á að um áramótin breytist hlutdeild fæðingarorlofshluta tryggingagjalds mjög verulega, fer úr 0,65% í 1,1% af tryggingagjaldinu. Það er veruleg breyting. Fjármögnun þessa frumvarps mun kosta um 5 milljarða á ári. Það er ekki verið að hækka tryggingagjaldið til að fjármagna þann þátt. Nei, við lækkum tryggingagjald um áramót um 4 milljarða. Það þýðir að raunframlag ríkisstjórnarinnar til lífskjarasamninganna, m.a. vegna þess máls sem við erum með hér undir, má heita 9 milljarða virði. Það eru 9 milljarðar sem ríkisstjórnin leggur lífskjarasamningunum til með lækkun tryggingagjaldsins og aukningu réttinda í fæðingarorlofi. Þetta er risastórt réttindamál sem við hljótum að geta glaðst yfir. Fram hjá þeim þætti málsins verður ekki litið og sem fjármálaráðherra fannst mér skylt að benda á hversu risastórt framlag liggur í lækkun tryggingagjalds samhliða stórauknum réttindum í fæðingarorlofi.