150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski gott að fara að stytta þessa umræðu en mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvers vegna flokkurinn leggst gegn þeirri skiptingu sem samþykkt var á Alþingi í gær, að hvort foreldri um sig fái fimm mánuði og svo tvo mánuði til skiptanna. Sú skipting er ekki bara í samræmi við þingsályktunartillöguna sem við samþykktum í gær heldur líka í samræmi við skýrslu sem unnin var á vegum velferðarráðuneytisins og aðilar vinnumarkaðarins áttu hlut að og skiluðu niðurstöðu sinni fyrir rétt rúmum þremur árum. Ég geri ekki ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins hafi skipt um skoðun í þessu máli en hæstv. fjármálaráðherra getur kannski upplýst mig um það.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að verið væri að hækka framlag til fæðingarorlofs sem kemur af tryggingagjaldi og ég spyr til að halda utan um söguna: Er ekki bara verið að færa það til fyrra horfs? Út frá því hvað greiðslur í fæðingarorlofi voru skertar í hruninu var hlutdeild tryggingagjaldsins til Fæðingarorlofssjóðs skorin verulega niður svo að ég sé ekki betur en að bara sé verið að færa það til fyrra horfs. Fæðingarorlofskerfið var nefnilega sjálfbært fyrir hrun.