150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og aðrir fagna ég því innilega að við horfum fram á lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir tæpum 20 árum var þetta markmiðið. Það hefur þokast hægt en það er að komast í höfn og það er fagnaðarefni. Hins vegar er verra með þetta dómadagsklúður ríkisstjórnarinnar. Við sjáum þrjár eða fjórar breytingartillögur frá stjórnarmeirihlutanum — og hvað segja þessar breytingartillögur okkur? Þær segja okkur e.t.v. að það sé algjört vantraust á að hæstv. félagsmálaráðherra komi með málið í tæka tíð af því að við upplifðum síðast í gær að hann kemur með málin seint og illa. Það er vantraust innan ríkisstjórnarflokkanna í hans garð eða það er einfaldlega vantraust í garð Sjálfstæðisflokksins, að hann standi við það að þetta verði ekki bara 12 mánuðir í fæðingarorlofi heldur að þetta verði áfram það jafnréttistæki sem hefur skipt okkur Íslendinga miklu máli, hvort sem það er að forsætisráðherra hafi komist til sinna starfa eða að við höfum verið í fremstu röð í tæp 11 ár á lista þjóða þar sem við (Forseti hringir.) erum með mest jafnrétti. Við megum ekki klikka á því og ég hvet þingheim allan til að að passa upp á að þessi vinkill í málinu glatist ekki.