150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

ræktun iðnaðarhamps.

[13:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í fréttum RÚV í gær var fjallað um tilraunaræktun með hamp í Gautavík í Berufirði. Þar fer fram öflugt frumkvöðlastarf við að þróa sjálfbærar og umhverfisvænar vörur úr iðnaðarhampi. Ég hef átt þetta samtal við iðnaðarráðherra tvisvar sinnum og fæ nú tækifæri til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þetta en vísbendingar eru um að iðnaðarhampur hafi verið ræktaður á Íslandi í nokkrar aldir, allt fram að banni gegn kannabis um miðbik síðustu aldar. Iðnaðarhampur er hráefni sem leysir af hólmi fjölmörg önnur mengandi efni, svo sem koltrefjar og steinsteypu og hampur bindur koltvísýring einstaklega hratt og fjölhæfi plöntunnar nær yfir byggingariðnað, matvælaiðnað, lyfjaiðnað og textíliðnað, svo að dæmi séu tekin.

Nú er svo komið að Lyfjastofnun hefur ákveðið að banna með öllu innflutning á hampfræjum en án þeirra verður öllum forsendum kippt undan þessari starfsemi. Í fréttum kom fram að Lyfjastofnun hefur ákveðið að taka þann pól í hæðina að allar afleiður kannabisplöntunnar séu ólöglegar á Íslandi, líka þær sem eru ekki nothæfar til að valda vímu. Þetta eru plöntur sem ættu í raun ekki að flokkast undir lög um ávana- og fíkniefni til að byrja með. Annars vegar hafa undirstofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins veitt heimild fyrir tilraunaræktun ásamt því að hafa veitt bændum í Gautavík styrk til áframhaldandi tilrauna en hins vegar hefur Lyfjastofnun, sem heyrir undir hæstv. heilbrigðisráðherra, ákveðið að stöðva innflutning á öllum fræjum. Mér skilst að ef þetta mál leysist ekki núna á innan við mánuði sé orðið of seint að hefja undirbúning ræktunar fyrir komandi sumar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það skjóti ekki skökku við að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sé að veita fé til starfsemi sem Lyfjastofnun telur ólöglega. Hvað er eiginlega í gangi hjá þessum stofnunum? Og hvenær og hvernig hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra leysa stöðuna sem upp er komin, því að ég geng út frá því að hæstv. ráðherra hafi áhuga á að leysa þessa stöðu svo að þessir frumkvöðlar geti haldið áfram.