150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

vandi Landspítalans.

[14:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en mér er í sjálfu sér ekki mikið rórra. Það er alveg rétt að það þarf fjölbreytt úrræði og það þarf einmitt að auka áhersluna á heimaþjónustuna en það höfum við líka verið að gera af mjög miklum þunga undanfarinn áratug eða svo vegna þeirrar einföldu staðreyndar að hjúkrunarrýmin hafa ekki verið byggð á þessu tímabili. Undirbúningur og framkvæmdir við Sléttuveg hófust fyrir nærri þremur árum síðan. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er núna tveggja ára gat í nýjum framkvæmdum hér á suðvesturhorninu og sér ekki fyrir endann á því. Fyrsta útboð á suðvesturhorninu sem áformað er af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins er á næsta ári. Þá eru rúmlega tvö ár í að slík rými opni. Það er því útséð með að nokkur ný rými opni á vegum þessarar ríkisstjórnar á öllu kjörtímabilinu. Það er öll áherslan, það er öll forgangsröðunin gagnvart þessum mikla veikleika sem veldur svo miklum vanda hjá Landspítalanum. Þetta veldur vonbrigðum. Þetta veldur áhyggjum. Ég spyr: Er verið að stýra heilbrigðiskerfinu?