150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

vandi Landspítalans.

[14:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég skil vel óþolinmæði hv. þingmanns af því að ég deili þeirri óþolinmæði og ég held að okkur væri öllum rórra ef það væri hægt að hefja undirbúning hjúkrunarrýma, byggja þau og opna á sama árinu og helst sama ársfjórðungnum. Ég myndi gjarnan vilja sjá það. Hins vegar eru viðfangsefnin miklu brýnni en svo að við getum einbeitt okkur einungis að uppbyggingu hjúkrunarrýma og þess vegna höfum við núna verið að skoða möguleika á því að gera viðbótarsamninga við þá sem þegar eru með rekstur, bæta við sveigjanlegum dagdvalarrýmum sem við erum að gera, vonandi bæði í Reykjavík og líka fyrir norðan og víðar um land, bæta umtalsvert í heimahjúkrun og aðra þjónustu, þannig að þetta er í raun og veru allt saman undir. Opnun sjúkrahótels skiptir líka miklu máli og var um það rætt sérstaklega í ábendingum landlæknis fyrir ári þegar rætt var um útskriftarvanda Landspítala. Það eru fjölmargar aðgerðir sem hefur verið ráðist í til að létta á þessu og hluti af því er aukið samstarf við heilsugæsluna (Forseti hringir.) sem hefur líka verið farið í. Þannig að já, það er verið að stýra þessu heilbrigðiskerfi.