150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fyrirkomulag loðnurannsókna.

[14:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er mikilvægt, eins og fram kom í máli ráðherra, að leggja áherslu á rannsóknir á loðnunni og forgangsraða og stunda víðtæka loðnuleit, ekki síður í ár en gert var á síðasta ári. Hvort sem það leiðir til þess að við getum veitt meira í ár eða ekki eykur það þekkinguna til framtíðar.

Eins og ég rakti að framan hefur loðnubrestur síðasta árs haft mikil áhrif. Ég kom inn á að 280 millj. kr. vantaði í kassann hjá Fjarðabyggð og það vantaði í rauninni 10 milljarða kr. í útflutningstekjur samfélagsins. Áhrif á tekjur ríkissjóðs voru áætluð 4–5 milljarðar í fyrra. Þó að nýjar atvinnugreinar eins og ferðaþjónusta og fiskeldi vaxi og byggi undir hagvöxt skiptir áfram máli að undirstöðuatvinnugreinarnar haldi áfram að skila tekjum.

Ég hlakka til að heyra (Forseti hringir.) fleiri svör við spurningunum frá því áðan en í ljósi stöðunnar spyr ég: Mun ráðherra hafa frumkvæði að umræðu um stöðu byggðanna í ríkisstjórn? Er ástæða til að bregðast við, t.d. með eflingu nýsköpunar og rannsókna?