150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fyrirkomulag loðnurannsókna.

[14:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn og aftur þá áherslu sem hv. þingmaður leggur á afkomu þeirra samfélaga sem þetta snertir mest. Ég vakti athygli á þessu og tók til umræðu í ríkisstjórn þegar loðnubresturinn var en við höfum ekki gripið til neinna beinna aðgerða.

Varðandi framhald rannsókna vil ég bara nefna hér að í þeirri rannsóknaáætlun sem unnið er eftir er gert ráð fyrir að fyrri rannsókn ljúki í janúar, vonandi ekki seinna en 24. janúar, að því gefnu að veðurgluggar verði örlítið lengri og fleiri en hefur verið hingað til, og síðan verði síðari mæling tekin í febrúar. Þetta snertir samfélög víða, það er vissulega rétt. Rétt áður en ég kom í hús fundaði ég með japönskum seljendum og kaupendum að loðnu og loðnuhrognum. Ef það gengur eftir, sem ýmislegt bendir til að geti orðið, að ekki verði endilega hörkuvertíð aftur, því miður, stefnir ekkert vel í því og þá er alveg ljóst að þetta hefur gríðarleg áhrif, ekki bara á atvinnu eða afkomu fólks í Japan heldur sömuleiðis framtíðarmöguleika okkar á þeim markaði sem hefur verið þessari atvinnugrein og þessum þætti sjávarútvegsins gríðarlega mikilvægur.

(Forseti (SJS): Forseti var mjög umburðarlyndur á ræðutíma handa hæstv. ráðherra í von um að hann kæmi því á framfæri að loðnan væri fundin en svo fór ekki.)