150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:24]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessar fyrirspurnir. Fyrri spurningin laut að því hvort haft hefði verið samráð við Persónuvernd við vinnslu frumvarpsins. Það var ekki gert formlega. Hins vegar var þetta frumvarp unnið og fundað nokkrum sinnum með persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins sem er, skulum við segja, sá sem fer með þetta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Stjórnarráðsins, og unnið með honum að þeim þáttum sem lúta að persónuupplýsingum.

Ég vil líka benda á að í greinargerð með frumvarpinu á bls. 3 er algerlega skýrt kveðið á um þetta og ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Er lagt til að vinnsla upplýsinga samkvæmt 3. gr. b sé háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en vinnsla fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.“

Menn töldu því að þetta ætti að geta verið í lagi. En eins og ég segi, þetta var unnið með persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins.

Varðandi seinni spurninguna, hvort þetta tengist að einhverju leyti samþykkt um farendur. Nei, það gerir það ekki með beinum hætti. Hins vegar kann vel að vera að það sé að einhverju leyti keimlíkt en þetta frumvarp er fyrst og fremst til komið, eins og ég rakti í ræðu, vegna ákvörðunar stjórnvalda og stjórnarsáttmála um að hefja samræmda móttöku flóttafólks óháð því hvort það kemur hér sem hælisleitendur, kvótaflóttafólk eða með öðrum hætti.