150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með samræmdri móttöku, eins og ég sagði áðan, er Fjölmenningarsetri ætlað það hlutverk að tengja saman sveitarfélög við flóttamenn sem vilja fara inn í samræmda móttöku. Orðið „vilja“ skiptir þarna miklu máli vegna þess að fólk getur haft val um það hvort það vill fara inn í það þegar það kemur ekki inn sem kvótaflóttamaður heldur með öðrum hætti eins og þeir einstaklingar sem koma frá Venesúela og hafa fengið leyfi til að dveljast hér. Þeir geta valið hvort þeir fara í samræmdu móttökuna þannig að það er valfrjálst, svo því sé haldið til haga.

Varðandi samræmdu móttökuna og þær áætlanir sem við erum að vinna út frá er gert ráð fyrir fjármögnun í fjármálaáætlun, í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs, til að hefja samræmda móttöku flóttafólks. Þannig að við gerum ráð fyrir þessum fjármunum og gerum ráð fyrir því að geta bæði tekið kvótaflóttamenn og þá sem koma með öðrum hætti. Þannig að svarið við því hvort þetta sé fjármagnað er: Jú, þetta er fjármagnað, við erum að vinna innan þeirra ramma og þeirra áætlana sem lagt var upp með þegar samþykkt var að fara í þetta verkefni, þannig að því sé algerlega skýrt til haga haldið.