150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:44]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mál um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, mál sem ég styð heils hugar, mál sem byggir á þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum innflytjenda sem lögð var fram af ríkisstjórn sem starfaði á árinu 2013–2016. Ég fylgdi þessu máli í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd sem framsögumaður og er mjög ánægð að sjá að nú er að verða að veruleika það sem við lögðum fram þá og búið er að vinna úr þessari aðgerð, ásamt fleirum vænti ég. En umræðan hér hefur mjög lítið snúist um lög um málefni innflytjenda eða það sem þeim fylgir. Hún hefur fyrst og fremst snúist um málefni útlendinga og það fólk sem er á ferð um heiminn. Ég vil vitna til orða hv. þingmanns þar sem hann sagði í sinni ræðu: Við eigum að einbeita okkur að því að taka betur á móti þeim sem eiga rétt á hæli hér. Ég held ég hafi náð því orðrétt. Ég heyrði ekki betur en að þingmaðurinn legði áherslu á það að við ættum að sinna vel þeim sem eiga rétt á alþjóðlegri vernd. Það er akkúrat það sem þetta mál gengur út á. Getur þingmaðurinn ekki staðfest það?

Þetta mál gengur út á að þjónusta jafnt alla þá sem hér eiga rétt á alþjóðlegri vernd. Þetta gengur út á það hvernig þjónustunni við þá sem hafa fengið afgreiddar umsóknir er háttað, að bæði kvótaflóttamenn og þeir sem fá hér alþjóðlega vernd njóti sambærilegrar þjónustu og fái tækifæri til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.