150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér álít ég hv. þingmann, sem ég þakka andsvarið, rugla saman annars vegar móttöku þeirra sem sækja hér um alþjóðlega vernd og málshraða umsókna og þeirri þjónustu sem þeir fá meðan þeir bíða eftir afgreiðslu umsókna og síðan þeirri þjónustu sem þeir fá eftir að umsóknin hefur verið afgreidd. Það er sú þjónusta sem er til umræðu hér, ekki þjónustan eða hraðinn á málsmeðferðinni.

Spurningar sem mig langar að beina til þingmannsins í seinna andsvari eru: Hvaðan koma upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hlutfall af íbúafjölda á Norðurlöndunum sem hafa fengið alþjóðlega vernd? Þær upplýsingar sem ég hef nýjastar frá árunum 2018 og 2019 sýna það að við erum á pari við Noreg og Finnland í móttöku bæði kvótaflóttamanna og þeirra sem koma sjálfir (Forseti hringir.) en í Svíþjóð er hlutfallið helmingi hærra en hér. Hversu mikið hefur umsækjendum um alþjóðlega vernd fækkað á síðustu tveimur árum?