150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að tala nokkurn skapaðan hlut um tímann sem tekur að leysa úr umsóknum, þó að það sé vissulega vert umræðuefni, og ég var heldur ekki að tala um þjónustu sem menn njóta á umsóknartímanum. Ég var einmitt að tala um samanburðinn sem er gerður með þessu máli á þjónustu sem menn munu eiga rétt á, hafandi verið samþykktir sem hælisleitendur, og svo þeirri þjónustu sem kvótaflóttamenn eiga rétt á. Það er raunar ekki ég heldur hv. þingmaður sem ruglaði saman umsóknum og hælisveitingum. Ég var ekki að tala um hælisveitingar, ég var að tala um umsóknir um hæli og út frá tölum frá Útlendingastofnun sem sýna það skýrt að miðað við íbúafjölda sækja margfalt fleiri um hæli, a.m.k. miðað við árið 2017 og 2018, á Íslandi en í Noregi og Danmörku. Hv. þingmaður nefnir að það hefur orðið fækkun. Mér sýnist nú reyndar að verði fjölgun á þessu ári. Fækkunin í Danmörku nam 84% milli áranna 2015 og 2017.