150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

459. mál
[16:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Lyklafrumvarp þarf að ákveðnu leyti að fara í þetta ferli til að lögin fari í gang og mjög eðlilegt það sé á ábyrgð lánveitanda að gera sér það virði úr sölunni sem uppfyllir það sem er eftir af láninu. Ég myndi vilja ganga pínulítið lengra, ég myndi vilja hafa það þannig að yfirleitt þegar lán er tekið fyrir fasteign sé það 80% lánshlutfall eða svo og að það sé sá hluti sem er undir veði. Þannig er eignarhlutinn varinn hjá þeim sem annars á íbúðina og veðið alltaf miðað við það lánshlutfall og þegar verið er að borga niður lánið breytist það líka þannig að það er meiri kaupleiga á þann hátt.

Ég hef smááhyggjur af einu í þessu þó að það hafi verið getið um meðalhófið sem þarf að gæta. Ég hef áhyggjur af gjaldfellingu lána við minnsta tilefni, ef maður missti tæknilega af einni eða kannski tveimur greiðslum, í annað skiptið sem maður missir kannski af eindaga og bankinn ætlar bara að selja húsið enda græðir hann meira á því, ef reikningsjafnan liggur þannig, að selja hana á nauðungarsölu þar sem bankinn getur bara gert það af sjálfu sér eða eitthvað því um líkt frekar en að halda áfram láninu. Það væri áhugavert að taka inn í nefndarvinnuna hvernig væri hægt að tækla það mögulega vandamál. Maður hefur séð það í öðrum lánasamningum, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem skuldir námsmanna voru gjaldfelldar við minnsta tilefni af því að það voru ákveðnar tryggingar og svoleiðis á bak við þær sem var ábatasamara fyrir lánsfyrirtækin að fá (Forseti hringir.) en fá áfram afborganir.