150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

menningarsalur Suðurlands.

55. mál
[18:42]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur hér mælt fyrir og styð ég hana að sjálfsögðu heils hugar. Það er ánægjulegt, herra forseti, að málið virðist hafa verið að hreyfast að undanförnu en það hefur verið á dagskrá árum og áratugum saman. Síðan sá ég að málið var á dagskrá ríkisstjórnarfundar 10. janúar sl. og það er vonandi góðs viti og nú fari loksins eitthvað að gerast í málinu og Sunnlendingar sjái fram á að eignast veglegan sal til að hýsa alla þá margháttuðu menningarstarfsemi sem í landshlutanum er að finna. Fyrir réttu ári síðan skoðaði hæstv. forsætisráðherra salinn og orðaði það svo í viðtali að menningarsalurinn á Selfossi væri eitt best geymda leyndarmál Suðurlands, en salurinn hefur staðið fokheldur í rúmlega þriðjung aldar. Við þetta tækifæri lýsti hæstv. forsætisráðherra bjartsýni sinni á að eitthvað færi að gerast í málefnum salarins.

Herra forseti. Auðvitað viljum við ekki að salurinn verði áfram einhvers konar leyndarmál heldur fremur að hann verði kláraður og verði miðstöð menningar á Suðurlandi. Það væri því vonum framar að gengið væri í þetta mál. Ég sá það í fjármálaáætlun fyrir 2019–2023, eins og kemur fram í greinargerð með þessu máli, að ráðgert er að hefja undirbúning að byggingu menningarhúsa í Skagafirði og á Fljótsdalshéraði sem er vel, en það er vert að klára fyrst það sem áður hefur verið gert áður en lengra er haldið á þeirri vegferð að setja mál af stað án þess að klára þau. Það er auðvitað ótrúlegt að menningarsalurinn á Selfossi, sem svo heitir, hafi staðið hrár og ófullgerður í meira en þriðjung aldar. Hann er fokheldur og stendur raunverulega albúinn til þess að vera innréttaður og kláraður. Hann getur tekið nær 300 manns í sæti og í honum er stórt svið og kjallari undir þessu svæði.

Selfyssingar hafa með bæjarfulltrúana í broddi fylkingar á undanförnum mánuðum teymt inn í fokheldan salinn þingmenn og ráðherra, auðvitað í þeirri von að eitthvað fari að gerast í málinu. Fjölmargir aðrir hafa barist fyrir salnum og í lok mars 2017 voru hollvinasamtök menningarsalar Suðurlands stofnuð. Það á auðvitað að vera alger óþarfi, herra forseti, með verkefni á vegum ríkisins að það sé ekki talið í mánuðum eða árum heldur í áratugum eða jafnvel hluta úr öldum sem tekur að ljúka einhverri byggingu á vegum ríkisins. Það er algerlega óboðlegt.

Það kemur fram í greinargerð að gert er ráð fyrir að það kosti 300–400 milljónir að koma salnum í fullkomið stand. Er þá vonast eftir myndarlegu framlagi frá ríkinu. Ég tek undir með flutningsmanni, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, að þetta telst ekki mikið fjármagn til að ráðast í svona þarft verkefni eins og menningarsalur er, vegna þess að þarna stendur steypan ónotuð og hefur gert lengi. Það þarf bara að klára þetta. Það er mikilvægt, ekki bara vegna þess að á svæðinu hefur íbúum fjölgað mikið heldur líka vegna þess að á Suðurlandi er miðstöð og hefur verið lengi miðstöð menningar í mörgum skilningi, bæði á sviði íþrótta og alls kyns annarrar menningar. Ég var þarna síðast fyrir nokkrum vikum á stórri skákhátíð, móti heimsmeistara, og var vel að því staðið í alla staði. Ég sé líka í auglýsingum og öðru að þarna fara fram stanslausir menningarviðburðir sem þurfa auðvitað að fá veglegri sess en nú er. Þarna er Fischer-setrið í skák, staðsett á Selfossi, og ég held að landslið okkar í handbolta sé að megninu til skipað íþróttamönnum sem geta rekið ættir sínar og æfingar til þessa staðar.

Í lokin vil ég mæla með því að þetta mál sæti hraðri meðferð til nefndar og verði afgreitt í vor þannig að hægt sé að ljúka þessu máli, sem ég styð heils hugar og vona að fái farsælan endi.