150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fjögurra ára áætlun um ýmis mál til hagsbóta fyrir neytendur árin 2021--2024.

306. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þessari tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun um ýmis mál til hagsbóta fyrir neytendur á árunum 2021–2024. Ásamt mér flytja þetta mál hv. þingmenn Oddný G. Harðardóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Inga Sæland og Björn Leví Gunnarsson.

Það eru þrjú meginmarkmið sem Alþingi leggur hér til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vinni í samræmi við það að tryggja bættan hag neytenda. Það er markmið um skilvirkt fyrirkomulag neytendamála, markmið um upplýsingamiðlun til neytenda og markmið um réttindi neytenda.

Þessi tillaga var lögð fram á 145. löggjafarþingi en er núna lögð fram með þeim breytingum sem gerðar hafa verið í lögum, m.a. vegna nýrra laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála sem voru samþykkt í fyrra. Markmiðið er að leggja fram tillögur sem miða að því að bæta hag neytenda með skjótum hætti og liggur alveg fyrir að á næstu árum þurfa stjórnvöld að bregðast við mörgum áskorunum á sviði neytendamála, hvort heldur þegar kemur að alþjóðavæðingu framleiðslukeðjunnar sem gerir eftirlitið flóknara, aukinni netverslun eða brotum á rétti neytenda. Það er líka þannig að í sumum tilfellum þekkja seljendur ekki rétt neytenda og hvað þá að neytendur þekki sinn rétt til hlítar. Það kom fram m.a. í könnun sem gerð var þegar þetta mál var lagt fram síðast, árið 2015, að margir þekktu ekki muninn á hlutverki Neytendastofu og Neytendasamtakanna. Það voru einungis rétt um 18% sem töldu sig þekkja muninn, rúmlega 80% gátu ekki gert greinarmun á hlutverki þessara stofnana. Neytendastofa er opinber eftirlitsstofnun en Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök. Rúm 58% sögðust myndu leita til Neytendasamtakanna ef þörf væri á aðstoð vegna ágreinings en einungis 18% til Neytendastofu. Það er mikilvægt að neytendur þekki þennan mun, að Neytendastofa er eftirlitsstofnun og meginhlutverk hennar er að gæta að og hafa eftirlit með neytendarétti og öryggi vöru, hafa eftirlit með viðskiptaháttum og stuðla að gagnsæi markaðarins, hafa yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði og framkvæmd sem að því lýtur og loks að miðla upplýsingum til aðila á markaði um réttindi þeirra og skyldur. Neytendasamtökin eru hins vegar frjáls félagasamtök sem hafa frá stofnun veitt neytendum alls konar ráðleggingar og aðstoð við að leita réttar síns gagnvart seljanda. Ríkið hefur gert þjónustusamning við samtökin um að sinna þessari þjónustu að einhverju leyti. Samtökin sinna einnig mikilvægu þjónustuhlutverki við neytendur sem kaupa þjónustu í öðrum Evrópulöndum, t.d. í gegnum Evrópsku neytendaaðstoðina.

Síðast voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi neytendamála árið 2005. Þá var embætti talsmanns neytenda stofnað og Neytendastofa tók formlega til starfa, en hún tók yfir verkefni Löggildingarstofu og hluta verkefna sem áður voru hjá Samkeppnisstofnun. Embætti talsmanns neytenda var lagt niður árið 2014.

Hér er gerð tillaga um að endurskilgreina hlutverk Neytendastofu og kanna hvort rétt sé að breyta verksviði stofnunarinnar þannig að hún starfi sem einhvers konar umboðsmaður neytenda að norrænni fyrirmynd sem hefði skýrt afmarkað hlutverk.

Ítrekað hefur verið lagt til að embætti umboðsmanns neytenda verði stofnað og tæki að hluta til a.m.k. yfir verkefni Neytendastofu auk annarra verkefna sem snúa að neytendavernd. Það kom út skýrsla um neytendavernd á fjármálamarkaði árið 2013 þar sem lagt var til að þessi leið yrði farin og tillögurnar hér byggja að mestu á því. Það þarf líka að tryggja þessum umboðsmanni fullt sjálfstæði og sambærilegar valdheimildir og annars staðar á Norðurlöndunum þannig að umboðsmaður geti sinnt öflugu eftirliti og aukið vitund neytenda til að veita samkeppnislegt aðhald. Hann þarf að vera sjálfstæður í störfum sínum og hafa ríka frumkvæðisskyldu til rannsókna, ekki síst á fjármálamarkaði.

Það er líka ýmislegt fleira lagt til hér sem umboðsmanni neytenda verði falið, m.a. atriði sem snúa beint að neytendum. Það verði meginviðfangsefni hins nýja embættis umboðsmanns neytenda. Þau ákvæði í lögum frá 2005 sem standa fjær beinum hagsmunum neytenda og eru í grunninn samkeppnisréttarlegs eðlis verði flutt úr lögunum og eftirlit með þeim verði fært til annarra stofnana. Þá kann auðvitað að koma til skoðunar samlegðaráhrif embættis umboðsmanns neytenda og embættis umboðsmanns skuldara. Hér er a.m.k. lagt til að gerður verði ítarlegur samstarfssamningur milli embættanna og þess hluta sem nú er í Seðlabankanum, þ.e. Fjármálaeftirlitsins, til að tryggja þessi upplýsingaskipti.

Hér er í nokkru farið yfir markmið tillögunnar og ég ætla bara að stikla á stóru og vísa svo að öðru leyti í þingsályktunartillöguna. Eins og ég sagði áðan byggir hún á þremur markmiðum. Það er í fyrsta lagi aukin neytendafræðsla. Við vitum öll að á frjálsum markaði hafa neytendur veigamikið hlutverk í því að veita seljendum aðhald. Það er því mikilvægt að okkar mati að neytendur séu upplýstir og búi yfir færni sem gerir þeim kleift að taka skynsamlegar ákvarðanir. Það byggist auðvitað á því að allir þekki rétt sinn, hafi verðvitund, séu læsir á markaðssetningu og auglýsingar, búi yfir fjármálalæsi og viti hvert þeir eiga að leita ef upp kemur ágreiningur við seljendur. Að því verða stjórnvöld að vinna og tryggja að neytendur hafi þennan aðgang að upplýsingum og fái fræðslu almennt um neytendamál. Eins og við þekkjum öll þá hefur verið mikil umræða um fjármálalæsi í skólum, bæði í grunn- og framhaldsskólum, og það hafa verið gerðar kannanir og í febrúar árið 2018 tók mennta- og menningarmálaráðherra ákvörðun um að Ísland yrði með í valkvæðum hluta PISA-könnunarinnar árið 2021 sem snýr að fjármálalæsi 15 ára nemenda.

Annar liður tillögunnar fjallar um aukna áherslu á sjálfbæra og ábyrga neyslu. Það hefur verið þannig á undanförnum áratugum að athyglin hefur í auknum mæli beinst að ábyrgð neytenda og mikilvægi þess að þeir séu upplýstir um uppruna vöru, enda hefur neysla þeirra margvísleg áhrif á umhverfið. Þá hefur framleiðsla á neysluvarningi að miklu leyti færst frá þróuðum ríkjum til fátækari landa þar sem framleiðslukostnaður er lægri, m.a. vegna lægri launa og minni krafna á sviði vinnuverndar og umhverfismála. Þetta þurfa neytendur að vera mjög upplýstir um, með hvaða hætti þeir geti haft áhrif með vali sínu á vöru og þjónustu. Það styður líka við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem er talað um ábyrga framleiðslu og neyslu og íslensk stjórnvöld eru skuldbundin til að vinna að þeim markmiðum rétt eins og stjórnvöld annarra ríkja. Að því miðar markmið nr. 12, að tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Til að ná markmiði tillögunnar um aukna áherslu á ábyrga neyslu leggja flutningsmenn þessarar tillögu til að settur verði á fót verkefnahópur sem hafi það að markmiði að semja áætlun í neytendafræðslu. Við gerð áætlunarinnar þarf verkefnahópurinn að taka tillit til framangreindra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Það er líka mikilvægt að fræðsla til neytenda um ábyrga neyslu nái til allra neytenda en ekki bara nemenda. Stjórnvöld eigi jafnframt að setja af stað verkefni til að vekja athygli á sjálfbærri neyslu.

Í þriðja lagi er hér talað um upplýsingar um verðmerkingar. Neytendur eiga ríkan rétt á upplýsingum um verð á vöru og þjónustu og mikilvægt er að reglum um verðmerkingar sé fylgt og eftirlit sé virkt. Hér er í fjórum liðum gerð grein fyrir því hvernig flutningsmenn þessa máls leggja til að því verði fylgt eftir og ég vísa í það.

Það er mikilvægt að endurskoða, uppfæra og kynna reglur um skilarétt. Við þekkjum það núna þegar útsölurnar standa sem hæst eftir jólin að fólk hefur fengið gjafabréf og slíkt sem hefur orðið ásteytingarsteinn þegar fólk skilar og skiptir vörum. Það er mikilvægt að reglurnar séu samræmdar, þær séu sanngjarnar þegar kemur að því að skila eða skipta vöru. Það eykur traust neytenda á seljendum og það getur og mun hafa jákvæð áhrif á verslun hér á landi fyrir utan að vera sjálfsögð neytendavernd. Reglurnar hafa svo sem fest sig að einhverju leyti í sessi, svo sem 14 daga skilaréttur, að maður þurfi að hafa kassakvittun o.s.frv., stundum gilda inneignarnótur í eitt ár en alla jafna eiga þær að gilda í fjögur ár, þ.e. gjafabréf, en það eru ákvæði sem seljendur hafa ekki alltaf fylgt eins og t.d. um gildistíma gjafabréfa og skil á vörum eftir að útsala er hafin. Þær reglur eru óþarflega flóknar og við eigum að reyna að laga þær. Það er mikilvægt að þær séu bæði hnitmiðaðar og skiljanlegar fyrir alla þannig að þær þjóni tilgangi sínum. Bandaríkin hafa gengið hvað lengst í að tryggja rétt neytenda á þessu sviði og í Kaliforníu er t.d. bannað að setja gildistíma á gjafabréf, enda má hugsa sem svo að seljandinn er auðvitað búinn að fá peningana inn í sinn rekstur og hví ætti hann þá að afskrifa þá fjármuni sem kaupandi hefur lagt til?

Flutningsmenn leggja til að gildistími gjafabréfa verði lögfestur í fjögur ár, það er hinn hefðbundni fyrningarfrestur, enda eykur það neytendavernd og er alls ekki íþyngjandi fyrir seljendur. Hins vegar þekkjum við það auðvitað að verslanir rúlla stundum mishratt og því getur verið gott að nýta sér inneignina eða gjafabréfið og geyma það ekki of lengi og hvet ég fólk til þess á þessum árstíma.

Hér er líka lagt til að innheimta sérstakra lántökugjalda á neytendalánum verði bönnuð. Við sem þessa þingsályktunartillögu flytjum teljum að kostnaður við lántöku eigi að vera innifalinn í vöxtum sem neytandinn greiðir. Hér er átt við lántökukostnað, bæði þóknun og gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánasamning. Það styður við niðurstöður nefndar sem gaf út skýrslu um neytendavernd á fjármálamarkaði árið 2013 þar sem talað er um að bankar, Íbúðalánasjóður og aðrir aðilar sem veita neytendalán þurfi í samræmi við upplýsingaskyldu neytendaréttarins að skýra nákvæmlega á hvaða kostnaðarliðum lántökukostnaðurinn byggist og forsendur fyrir því að gjaldið sé háð fjárhæð.

Að lokum, virðulegi forseti, leggjum við til að sett verði á fót samanburðarverðsjá á fjármálamarkaði, þ.e. vefsíða þar sem allar upplýsingar um fjármálaþjónustu eru veittar á skýran og aðgengilegan máta. Það eru ýmsar síður í loftinu, m.a. Aurbjörg og Herborg, sem taka saman hluta af þessum upplýsingum eins og um húsnæðislán, kortaþjónustu og sparnaðarleiðir, en við viljum að það verði auðvelt að bera saman ýmsa mikilvæga þætti í fjármálum einstaklinga; vátryggingar, alls konar sparnaðarleiðir, húsnæðislán o.s.frv. eins og tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Það er til staðar úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og hún starfar samkvæmt gömlu samkomulagi. Við teljum að skýra þurfi stöðu nefndarinnar betur og undir það tekur umboðsmaður Alþingis.

Virðulegi forseti. Við teljum að þær breytingar sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu verði til þess að bæta hag neytenda og ekki síst til þess að skýra fyrirkomulag neytendamála. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga fái framgang hér innan þingsins.