150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi.

203. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingarnar og einnig þá spurningu sem hann varpaði fram. Ég held að óhætt sé að segja að við séum ansi sammála um þennan — ég ætla ekki að kalla álftina vargfugl þó að sumir leyfi sér það. Vissulega er tilgangurinn með þessari tillögu sá að reyna að ná utan um stofnstærð fugla og þá þarf að gera það af skynsemi, meta tjón af völdum þeirra o.s.frv. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að á sumum landsvæðum verður að grípa til róttækra aðgerða til að verjast tjóni af völdum álfta.

Einnig sjáum við að heiðagæsinni hefur fjölgað mikið. Við sáum ekki heiðagæs á láglendi fyrir 10–15 árum en nú er hún farin að hrekja meira að segja grágæsina í burtu af túnum. Það verður að ná utan um þetta af því að það er engan veginn réttlætanlegt að einhverjir stofnar blási út á kostnað annarra. Vissulega eru þetta verðmæti. Þegar menn greina stærðina og vandamálið vonast ég náttúrlega til þess með þessari þingsályktunartillögu að menn geri eitthvað í málunum. Ef það er niðurstaða varðandi þá gagnasöfnun sem á að fara í að álftinni hafi fjölgað óhóflega, og það á þá eins við um heiðagæsastofninn, verður bara að grípa til þeirra aðgerða að reyna að fækka henni.