150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Í síðastliðinni viku varð mikil umræða um stöðuna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, stöðuna á bráðadeild og um heilbrigðiskerfið almennt. Mikið var rætt um málið í velferðarnefnd og kom mikið af gagnlegum og mikilvægum upplýsingum þar fram frá fólkinu sem er að vinna á gólfinu, vinna við þessar aðstæður, og frá þeim sem vinna í heilbrigðiskerfinu almennt. Mikið kom fram af lausnum og margar leiðir voru ræddar. Það kom m.a. fram að vandinn er ekki bráðadeildin sjálf heldur er vandi á bráðadeildinni út af því að ekki eru notaðar aðrar ódýrari, hagkvæmari og skilvirkari lausnir innan heilbrigðiskerfisins. Þetta eru upplýsingar sem koma frá fólkinu sem vinnur á bráðadeild, vinnur á Landspítalanum og öðrum þeim sem innan heilbrigðiskerfisins hafa verið að benda á lausnir sem þeim geti gagnast. Það kom t.d. í ljós að um helmingurinn af þeim viðvikum sem falla til á bráðadeildinni, helmingur álagsins, er vegna öldrunar þjóðarinnar sem t.d. hjúkrunarrýmin geta leyst mun ódýrar. Þá kemur í ljós að t.d. hjúkrunardeildin sem Landspítalinn rekur er um 40–50% dýrari en önnur hjúkrunarheimili. Þau hjúkrunarheimili, sem fá ekki næg daggjöld og eru ekki með nægilega góða samninga, eru farin að senda fólk inn á bráðadeild núna af því að þau ná ekki að fullmanna sína hjúkrun. Þannig að mér sýnist við þurfa að ná enn betri yfirsýn yfir kostnaðargreiningu innan heilbrigðiskerfisins til þess að við náum að nýta fjármunina sem þar eru — sem eru miklir fjármunir, samt aldrei nógir. Það þarf að nýta þá betur og skilvirkar og veita skilvirkari og betri þjónustu með því að ná betri yfirsýn og veita þjónustuna á réttum stað.