150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar erum ýmsu vön þegar kemur að náttúru landsins. Aðventustormurinn sem gekk yfir stóran hluta landsins í desember og lægðir síðustu vikna hafa þó afhjúpað hversu varnarlaus við raunverulega erum og hversu veikir innviðir okkar eru. Á síðustu áratugum hafa lifnaðarhættir okkar breyst og erum við orðin sífellt háðari rafmagni við okkar daglegu störf, jafnvel húshitun á hitaveitusvæðum treystir í mörgum tilfellum á rafmagn sem og heimasímar, ólíkt því sem áður var. Það er því ekki að undra þegar langvarandi rafmagnsleysi kemur upp að heilu samfélögin lamist á meðan.

Samfélagslegir innviðir, hvort sem um er að ræða raforku, snjóflóðavarnir, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónustu, eiga sömuleiðis að vera með þeim hætti að sem minnstu máli skipti hvar fólk kýs að búa. Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda, herra forseti, að jafna búsetuskilyrði og stuðla að velferð og öryggi fólks um allt land og við verðum að setja meiri kraft í þá uppbyggingu. Samhliða eigum við að styrkja kjarnasvæði um landið og byggja upp fleiri borgarsvæði. Það heppnaðist vel að byggja upp borg í Reykjavík. Nú er komið að því að byggja upp fleiri til að skapa aukið jafnvægi í landinu líkt og vísir er að á Akureyri.

Herra forseti. Uppbygging innviða á ekki að vera pólitískt bitbein eða til að hlaupa með í skotgrafir tvíhyggjunnar — höfuðborg á móti landsbyggð, umhverfi á móti nýtingu. Þetta getur allt farið svo vel saman. En við þurfum að leggjast á eitt og breyta hugsanagangi okkar, breyta kerfinu og breyta umræðunni.