150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, mér þykir það frumvarp sem hér er til umræðu, um breytingu á lögum um Kristnisjóð, mjög áhugavert. Mér finnst vissulega full ástæða til að fara í djúpa og mikla umræðu um mikilvægi kirkjunnar, mikilvægi æðri máttar, eða trúfrelsi, eins og okkur virðist gjarnt að gera þegar málefni sem tengjast kirkjunni koma til umræðu. Við tókum langa og mikla umræðu um það í tengslum við kirkjujarðasamkomulagið hér fyrir jól, og lagði ég þá jafnvel til að við tækjum sérstaka umræðu um þjóðkirkjuna og gildi hennar. Ég vil enn og aftur leggja það til og beini því sérstaklega til þeirra sem eru mjög áhugasamir um þau mál.

Mig langar þó fyrst og fremst að benda á ákveðið misræmi sem mér þykir vera fyrir hendi þegar kemur að lögum um gatnagerðargjald. Það var nefnilega þannig áður að á gatnagerðargjald var litið sem gjald, þ.e. að það ætti að standa undir kostnaði við að leggja viðkomandi götu. Því var síðan breytt með lögum um gatnagerðargjald, sem ég hygg að séu frá árinu 2006, en þá var skilgreint að gatnagerðargjald væri í raun skattur sem sveitarfélög megi innheimta og nýta í viðhald og uppbyggingu gatna. Í þessum ágætu lögum frá árinu 2006 er líka sérstaklega tekið fram hvenær sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald og það er mjög afmarkað í þeim lögum. Fyrir utan að það geta verið viðbyggingar innan ákveðins fermetrafjölda, sameiginlegar bílageymslur eða annað þá getur þetta átt við um sérstakar aðstæður, t.d. þegar verið er að þétta byggð, þegar lítil ásókn er í viðkomandi lóðir, og ég veit að sveitarfélög á landsbyggðinni hafa nýtt sér það að einhverju leyti, eða vegna eftirspurnar á leiguhúsnæði og þegar um er að ræða félagslegt húsnæði. Það eru mjög stífar reglur í kringum það. Hvergi í þessum lögum get ég séð einhverja heimild til handa sveitarfélögunum til að gefa eftir skattinn gatnagerðargjald nema bara undir þessum ákveðnu tilmælum.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að ég þekki nokkuð vel til slíks máls úr mínu sveitarfélagi. Þar var ágreiningur uppi af hálfu ríkisins annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar varðandi gatnagerðargjöld fyrir framhaldsskóla. Í eldri lögum um framhaldsskóla hafði verið talið að sveitarfélagið ætti að leggja til land undir framhaldsskóla án endurgjalds en árið 2015, þegar þessi málaferli voru komin af stað, ákvað löggjafinn, þeir sem hér sátu þá, að breyta orðalaginu þannig að það tæki örugglega á því að það væri án kvaða eða gjalda. Þá töldu lögfræðingar sig vera að fella það undir, að það væri alveg skýrt að ekki ætti að innheimta gatnagerðargjöld af þessu. Á sama tíma og ríkið neitaði að greiða gatnagerðargjöld vegna framhaldsskóla, sem er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga, var í sama sveitarfélagi reist hjúkrunarheimili sem fellur undir sömu skilgreiningu, samstarf sveitarfélags og ríkisins, en þar voru gatnagerðargjöld reiknuð. Það er ástæða til að geta þess að af öllum byggingum sem sveitarfélög reisa, skólum og öðru þess háttar, er reiknað gatnagerðargjald. Auðvitað fer það ofan í einn vasann og upp úr hinum en það er eðli gatnagerðargjalds að það skal reiknast inn í allan byggingarkostnað.

Mér þykir því furðu sæta að á sama tíma og við erum með það skýrt að gatnagerðargjald sé skattur með mjög afmarkaðar heimildir — og þá kem ég kannski að því sem er áhugavert en það eru heimildir sveitarfélagsins til að veita afslátt eða veita undanþágur gagnvart þessari greiðslu — þá séum við líka í lögum um framhaldsskóla og í lögum um Kristnisjóð að tala um eitthvað sem heitir að úthluta ókeypis lóðum og það er ekki bara að sveitarfélögum sé slíkt heimilt heldur er þeim það skylt samkvæmt þeim lögum. Þetta er augljóslega gamalt ákvæði. Mér finnst því full ástæða til að í þessari umræðu allri sé þetta skoðað í stóra samhenginu. Ég viðurkenni, virðulegur forseti, að það er kannski ekki úthugsuð pæling, en á meðan ég var að undirbúa mig fyrir ræðuna og fara í gegnum þessi lög velti ég því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að í lögum um gatnagerðargjald væri veitt sérstök heimild til sveitarstjórna til að lækka eða fella niður gjöld og tilgreina kirkjur þar undir, eða einhvers konar trúarhúsnæði.

Tökum sem dæmi björgunarsveitir sem hafa verið mjög mikið í umræðunni á síðustu vikum vegna ótrúlega mikilvægra starfa sem þær hafa verið að sinna. Þær þurfa jú gjarnan að hafa húsnæði. Ég get ekki skilið þessi lög öðruvísi en svo að sveitarfélögum sé t.d. ekki heimilt að veita afslætti eða fella niður gatnagerðargjöld vegna slíkra bygginga. Mig langar kannski að einhverju leyti að setja björgunarsveitirnar og kirkjurnar undir sama hatt sem mikilvægar einingar í okkar samfélagi og þá velti ég því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að sveitarfélögunum sé heimilt að fella gjöldin alveg niður eða lækka þau. Ég ítreka að ég er að tala um heimild til handa sveitarfélögunum því að sveitarfélögin eiga jú að vera sjálfstæð. Þess vegna finnst mér fara illa á því að löggjafinn sé annars vegar með lagabálk sem segir nákvæmlega að þetta sé skattur og ekki megi mismuna þegar verið er að ræða skatt, og það eru einungis örfá undantekningartilfelli tilgreind sérstaklega í lögunum, og á hinn bóginn er um að ræða lög sem kveða á um ókeypis lóð án kvaða og gjalda.

Ég beini því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar að velta þessu aðeins upp. Ég veit að málið flækist þá enn frekar því að ég hygg að lög um gatnagerðargjöld séu undir hv. umhverfis- og samgöngunefnd. En það er stundum svona þegar við ræðum þessi síló. Þetta er alla vega það sem ég vil koma á framfæri hvað þetta mál varðar.