150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gengur svolítið langt þegar hann er að beita hugtakinu mismunun fyrir sig. Hugtakið mismunun á ekkert við hérna (HHG: Geturðu ekki svarað?) — get ég ekki svarað? Ég er að svara hv. þingmanni og ef hann vill ástunda frammíköll þá getur hann svo sem gert það, en ég minni hv. þingmenn á að hér er stjórn á fundinum og hún er mjög traust um þessar mundir. Auðvitað er ríkinu heimilt, auðvitað er Alþingi, löggjafanum, heimilt, að setja ákvæði eins og það sem hv. þingmaður og félagar hans, sumir hverjir komandi úr óvæntri átt, eru að beita sér fyrir. Auðvitað er löggjafanum fullkomlega heimilt að gera það. Síðan er þessi málflutningur að tala um eitthvert eitt trúfélag. Við erum að tala um þjóðkirkjuna, við erum að tala um að þetta er kirkjan í landinu sem átti allar þessar eignir sem hún lét ríkinu í té og þessi 5. gr. er bara örlítil viðurkenning á því hve ríkið tók við gríðarlegum eignum úr hendi kirkjunnar. Lítil viðurkenning á því.