150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna.

52. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna. Þær raddir hafa heyrst og heyrast æ oftar að leitað skuli leiða til að taka örlagaríkar ákvarðanir í nafni Sameinuðu þjóðanna með lýðræðislegri hætti en nú er gert. Þykir mörgum of mikil völd liggja hjá öryggisráðinu þar sem fimm ríki, Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland og Frakkland, hafa neitunarvald.

Við stofnun Sameinuðu þjóðanna um miðja síðustu öld hefur mönnum eflaust verið í fersku minni hve máttlaus forveri þeirra, Þjóðabandalagið, var þegar á reyndi. Stórveldin töldu sig ekki þurfa að taka tillit til ákvarðana Þjóðabandalagsins og ályktana sem voru þar gerðar og fóru því óhikað sínu fram eins og dæmin hafa sannað. Ekki er ólíklegt að þessi sögulegi bakgrunnur skýri að einhverju leyti þá ofuráherslu sem lögð var á aðkomu stórvelda að allri ákvörðunartöku við stofnun Sameinuðu þjóðanna. Með því móti mætti tryggja velvild þeirra í garð samtakanna og að þær ákvarðanir sem teknar væru á þeim vettvangi yrðu virtar.

Hin miklu völd fastaríkjanna í öryggisráðinu hafa hins vegar leitt til þess að telji þau hagsmunum sínum á einhvern hátt ógnað með samþykktum Sameinuðu þjóðanna í allsherjarþinginu hafa þau ekki hikað við að beita neitunarvaldi til að hindra að þær næðu fram að ganga. Þetta á sérstaklega við um Bandaríkin, Kína og Rússland.

Þessu ófullkomna fyrirkomulagi verður ekki haggað nema með stuðningi tveggja þriðju hluta allsherjarþingsins, auk þess sem fastaríki öryggisráðsins geta fellt allar tillögur um breytingar á skipulagi Sameinuðu þjóðanna með neitunarvaldi sínu.

Núverandi fyrirkomulag leiðir af sér að risavaxin ríki hafa jafn mikið vægi í öllum málum og smáríki, t.d. er Kína með jafn mörg atkvæði í allsherjarþinginu og Kíríbatí, og Túvalú er með jafn mörg atkvæði og Indland. Þetta er í allsherjarþinginu en á vettvangi öryggisráðsins fara auðvitað stórveldin með sitt vald. Þetta leiðir af sér tilhneigingu til að sniðganga allsherjarþingið og dempa vægi þess með ýmsu móti. Með því að gefa löndum aukið vægi í samræmi við íbúafjölda ásamt því að færa starfsemi Sameinuðu þjóðanna nær almenningi í hverju landi má í senn styrkja stöðu Sameinuðu þjóðanna á heimssviðinu og styrkja tiltrú almennings á Sameinuðu þjóðunum.

Tillaga þessi snýst um að afla stuðnings Alþingis við þá tillögu að auka lýðræðið innan Sameinuðu þjóðanna og efla áhrif borgara aðildarríkjanna á starfsemi þeirra með því að koma á þingi skipuðu kjörnum fulltrúum innan Sameinuðu þjóðanna. Er gert ráð fyrir því að í fyrstu gegni þetta þing ráðgjafarhlutverki en takist starfsemi þess vel gæti það hugsanlega, þegar fram í sækir, orðið ákvörðunaraðili um starf og stefnumótun Sameinuðu þjóðanna.

Þessi þingsályktunartillaga er endurflutt óbreytt frá 149. löggjafarþingi en hún var áður lögð fram af Ögmundi Jónassyni á 145. og 144. löggjafarþingi og þakka ég honum fyrir góða tillögu. Tillagan er að mestu óbreytt frá fyrstu framlagningu en greinargerð hefur verið lítillega uppfærð og auk þess er núna fylgiskjali með áskorun frá UNPA Campaign bætt við. Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram af mér, Smára McCarthy, ásamt hv. þingmönnum Birni Leví Gunnarssyni, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Andrési Inga Jónssyni.

Ég hef á undanförnum árum, aðallega síðasta árið, starfað með alþjóðlegum hópi þingmanna víða að úr heiminum sem eiga það sameiginlegt að styðja við þessa tillögu. Þetta er ófullkomin lausn en þetta er samt betri lausn en flest sem hefur komið fram vegna þess að þetta gengur út á að ekki eigi að skipta út allsherjarþinginu heldur búa til nokkuð sem mætti kannski kalla neðri deild Sameinuðu þjóðanna þar sem er einhvers konar jafnvægi milli íbúafjölda hvers ríkis og áhrifavalds þess innan þingsins. Þetta gæti orðið til þess að stórveldin, sem þá hefðu töluvert meira atkvæðavægi, gætu farið að halla sér meira að þessu fyrirkomulagi í stað þess að beita alltaf öryggisráðinu. Öryggisráðið hefur verið vandasamt og flestum finnst að það séu vandamál við öryggisráðið sem hefur ekki náðst að leysa með öðrum hætti. Þessi tillaga hefur þann kost að bæði efla lýðræðislega aðkomu með því að hafa fleiri fulltrúa sem eru nær almenningi í hverju landi fyrir sig og gefa á sama tíma stórveldunum einhvers konar annan öryggisventil til að beita valdi sínu án þess að alltaf komi til breytingar og neitunarvald. Með því gætu skapast aðstæður þar sem öryggisráðið yrði aðlagað því formi sem var kannski gengið út frá í upphafi, að það myndi sinna öryggismálum heimsins frekar en að standa hreinlega í vegi fyrir góðum lýðræðislegum breytingum þegar heimsbyggðin kallar á þær.

Sameinuðu þjóðirnar eru að mínu mati, frú forseti, rosalega mikilvægt kerfi stofnana. Kannski tökum við ekki mikið eftir því á Íslandi í dagsdaglegum störfum okkar og kannski enn síður úti í samfélaginu þar sem við búum ekki í landi þar sem aðstoðar flestra stofnana Sameinuðu þjóðanna gætir. Við höfum ekki þurft á þeirri aðstoð að halda, sem betur fer, að jafn miklu leyti og aðrar þjóðir en þó höfum við tekið virkan þátt í mörgum stofnunum. Kannski mætti nefna UN Women og UNESCO — í rauninni eru stofnanirnar svo margar að varla er hægt að telja þær upp. Á undanförnum árum hefur verið ákveðin viðleitni til að grafa undan starfi Sameinuðu þjóðanna. Að sumu leyti hefur það verið með samdrætti í fjármögnun, t.d. af hálfu Bandaríkjanna þegar þau drógu allan stuðning sinn frá UNESCO. Á sama tíma er á margan hátt verkefni Sameinuðu þjóðanna að breytast eftir því sem meiri tortryggni gætir í garð stjórnkerfis heimsins. Hvort sem við erum að tala um einstaka þjóðríki, þing þeirra eða Sameinuðu þjóðirnar sjálfar er ljóst að það er krafa um lýðræðisvæðingu úti um allt. Þegar við erum að tala um stofnanakerfi sem er yfirdrifið mikilvægt en kannski ekki yfirdrifið lýðræðislegur bragur yfir störfunum hjá Sameinuðu þjóðunum er kannski áhugavert að sjá þessa tillögu sem nokkurs konar tilraun til að laga það sem er þá að frekar en að byrja upp á nýtt vegna þess að við vitum hvernig fór síðast.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í haust ásamt nokkrum góðum hv. þingmönnum. Var sú ferð rosalega upplýsandi fyrir mig, bæði vegna þess að ég sá hversu mikil verðmæti eru í því að stofnanir Sameinuðu þjóðanna virki vel en ég sá líka hvað þær eru margar brothættar og hvað kerfi Sameinuðu þjóðanna á mikið undir því að einstök ríki standi með þeim, ekki bara á tyllidögum og að nafninu til heldur samsami sig raunverulega þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar leggja upp með. Því er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að við tökum þessari áskorun og styðjum sem þing Íslands og Íslendinga við þessa hófsömu tilraun til að lýðræðisvæða þessa mikilvægu stofnun. Annars veit ég ekki hversu illa gæti farið.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er í New York sem er mikilvæg borg á heimsvísu en hún er mikilvæg bæði á Vesturlöndum og norðurhveli jarðar. Ef af einhverju þingi af þessu tagi verður þætti mér skemmtilegt og eðlilegt að það yrði með aðsetur á suðurhveli og í Austurlöndum til að búa til ákveðið jafnvægi sem er ekki til staðar í dag. En þetta er mín persónulega skoðun á máli sem er miklu stærra en ég. Ég segi þó að það yrði jákvætt að þetta mál gengi áfram til síðari umr. og að ég held utanríkismálanefndar. Hún er a.m.k. fínn staður fyrir málið og vonandi veitir Alþingi því brautargengi.