150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

um fundarstjórn.

[11:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég talaði áðan í óundirbúnum fyrirspurnum um fyrirsjáanleika. Óundirbúnar fyrirspurnir eru mjög mikilvægur liður og tækifæri til að draga fram stefnu og skoðun einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild. Nefndarfundir eru annar slíkur vettvangur þar sem við getum einnig átt orðaskipti við ráðherra. Það er mjög mikilvægt þó að ráðherrar séu samhljóða þegar þeir koma annars vegar inn á nefndarfundi og hins vegar hingað í þingsal, ég tala nú ekki um þegar ekki er liðinn sólarhringur á milli funda. Ég tel að ráðherra hafi ekki verið það að þessu sinni. Nú kann að vera að það séu mínar takmarkanir sem ráða því að ég las öðruvísi úr orðum hans á nefndarfundi í gær en hér. Sá vafi verður að vera uppi þangað til ráðherra kemur aftur fyrir fund utanríkismálanefndar og gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum og ég mun auðvitað kalla eftir því núna.