150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga öflugan, vel rekinn og arðbæran sjávarútveg og fiskveiðistjórnarkerfi sem stuðlað hefur að mikilli hagræðingu í atvinnugreininni, aukinni verðmætasköpun og góðri afkomu þessarar lykilatvinnugreinar sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. En samhliða þeirri þróun sem verið hefur í sjávarútvegi og vissulega vanköntum þessa fiskveiðistjórnarkerfis sem um hefur verið deilt lengi, svo sem mikillar samþjöppunar í greininni, áhrifum þess á byggðir landsins, fækkun útgerða og að veiðiheimildir hafa sífellt færst á færri hendur, er orðið löngu tímabært að útkljá þetta gamla þrætuefni um það hvernig veiðiheimildum skuli úthlutað, hvernig viðskiptum með þær skuli háttað og hvernig þjóðinni sé tryggð ásættanleg hlutdeild í arðsemi greinarinnar. Þegar allt kemur til alls er þetta jú sameiginleg auðlind þjóðarinnar eins og svo oft er talað um.

Mér fannst reyndar áhugavert þegar ég var að kynna íslenska fiskveiðistjórnarkerfið fyrir erlendum aðilum að einn gestanna hnaut um þá síendurteknu fullyrðingu. Hvernig gæti þetta verið sameiginleg auðlind þjóðar þegar nýtingarréttur væri háður einkarétti og ótímabundinn? Hvernig getur þjóð átt hlutdeild í ótímabundnum nýtingarrétti? Þetta er hið eilífa þrætuepli. Nýlegt Samherjamál vekur enn og aftur athygli á því að þrátt fyrir vel samhæfðan og samstilltan grátkór útgerðarmanna um að það sé gengið af atvinnugreininni nær dauðri með sérstakri gjaldtöku, þ.e. veiðigjaldinu, er greinin sjálf að því er virðist tilbúin að greiða talsvert hærri gjöld fyrir veiðiheimildir í erlendum lögsögum, þótt þær sömu veiðiheimildir, eins og mál Samherja í Namibíu sýndi, séu aðeins til árs í senn. Það skýtur mjög skökku við hinn eilífa málflutning útgerðarinnar um að veiðiheimildirnar séu þeim mun verðmætari sem þeim sé úthlutað til lengri tíma. Þá skyldum við ætla að hér á landi fyrir ótímabundnar veiðiheimildir háðar einkarétti væri útgerðin tilbúin að greiða mun hærra verð en hún er tilbúin að greiða fyrir skammtímaveiðiheimildir í lögsögu erlendis. Það hlýtur að vera sérstakt rannsóknarefni fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra og ráðuneyti hans hvernig standi á þessu.

Því held ég að sé tímabært að taka þessa umræðu upp hér í þinginu. Við höfum ítrekað komist að þeirri niðurstöðu í faglegum nefndum sem um þessi mál hafa fjallað að þeim málum væri best háttað með úthlutun tímabundinna veiðiheimilda. Það kom fram í niðurstöðu þverpólitískrar auðlindanefndar fyrir röskum 20 árum síðan að þetta væri farsælasta leiðin til að ná sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Það hefur verið endurtekið í þó nokkrum sérfræðinganefndum síðan en kemst aldrei til framkvæmda, fyrst og fremst vegna ítrekaðrar andstöðu Sjálfstæðisflokksins við slíkar breytingar, nú síðast í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013–2016 þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lagðist þversum gegn því að slíkt frumvarp yrði lagt fyrir þingið. Þingið fékk ekki einu sinni að ræða frumvarp um tímabindingu veiðiheimilda.

Það er því rétt að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn finnur því til foráttu að veiðiheimildum til útgerða sé úthlutað tímabundið og að þeim sé úthlutað með útboðsfyrirkomulagi sem hagfræðin segir okkur einmitt að það sé svo eðlilegt fyrirkomulag þegar við erum að úthluta gæðum af skornum skammti? Þetta er takmörkuð auðlind. Þá er einfaldlega verið að segja: Með fyrirsjáanleika um úthlutun veiðiheimilda til lengri tíma litið, er ekki rétt að leyfa útgerðinni einfaldlega að bjóða í þetta, að gefa í gegnum uppboðsfyrirkomulagið til kynna hversu hátt veiðigjald hún sé í raun reiðubúin að greiða? Staðreyndin er sú að samhliða aukinni verðmætasköpun, samhliða hækkandi afurðaverði og batnandi afkomu, þá lækkar veiðigjaldið sífellt. Þessi ríkisstjórn sem nú situr stóð einmitt að því að breyta fyrirkomulagi (Forseti hringir.) og álagningu og útreikningi veiðigjalda til lækkunar. Hverju sætir andstaða Sjálfstæðisflokksins og þessarar ríkisstjórnar við eðlilegt og sanngjarnt fyrirkomulag í þessum efnum?