150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fiskveiðistjórnarkerfið og við Vinstri græn viljum gera mikilvægar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í þessu stjórnarsamstarfi náðum við samkomulagi um að leggja áherslu á byggðahluta kerfisins og þar höfum við gert ýmsar góðar breytingar til framfara. Strandveiðar hafa verið efldar og styrktar og komið hefur verið upp öflugum leigupotti í makríl og við höfum endurskoðað veiðigjöldin þannig að þau eru afkomutengd og afsláttur er fyrir fyrstu 6 milljónirnar sem hefur gagnast mjög vel fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Allt eru þetta áherslur sem skipta máli einmitt fyrir þau þorp og bæjarfélög sem hafa orðið illa úti í kvótakerfinu vegna framsals. Við leggjum áherslu á það að við viljum með einhverjum hætti takmarka hið mikla framsal sem hefur leitt til mjög mikillar samþjöppunar og það er mjög gott að núna liggur fyrir afrakstur verkefnisstjórnar sem sjávarútvegsráðherra skipaði um að skilgreina betur tengda aðila og að aflahlutdeild útgerðarfyrirtæki fari ekki upp fyrir 12% af heildarúthlutun.

Við Vinstri græn leggjum mikla áherslu á að fá auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, það er mjög mikilvægt, og það þarf að gera uppstokkun á kerfinu. En það mun aldrei nást einhver kollvörpun á kerfinu á einum sólarhring, við vitum það sem höfum barist fyrir breytingum til fjölda ára. Varðandi þær tillögur og hugmyndir þessara þriggja flokka sem liggja hér fyrir, sem sérstaklega Viðreisn og Samfylking hafa talað fyrir, svokölluð markaðsleið, held ég að liggi algerlega fyrir að það sé leið sem muni leiða til áframhaldandi samþjöppunar og gengur hreinlega ekki upp. Þetta er ekta hægri stefna, markaðsleið út í eitt, og allir þeir sem eru félagslega þenkjandi og þeir sem búa vítt og breitt um landið vita hvaða afleiðingar það mun þýða fyrir þær byggðir.