150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni og ráðherra fyrir þessa umræðu. Ég vil grípa strax niður í það sem ráðherrann sagði í ræðu sinni og verður eiginlega að teljast stórkostlega furðulegt. Samherji í Namibíu gat boðið tvöfalt eða jafnvel þrefalt, ég veit ekki hvort heldur er, hærra í aflann og ætlaði að græða á því en samt talar ráðherrann um kostnað og gjöld á Íslandi sem vegi upp á móti. En þarna erum við að tala um tvöfalt, þrefalt hærri gjöld — plús mútur. Gleymum ekki mútunum. Þetta virðist ekki vefjast fyrir þeim. Í hvers lags þjóðfélagi búum við? Við höfum búið til eina stétt sem veður í peningum á sama tíma og við lemjum aðrar stéttir niður þannig að þær eiga ekki fyrir mat og lyfjum. Þarna kemur bara að spurningunni: Er græðgin góð? Ég segi nei. Græðgin er að drepa okkur, græðgi ákveðinna aðila. Hverjir eru það sem fóðra þessa græðgi og leyfa þessu fólki að vaða uppi? Það erum við hér á þingi. Og þess vegna segi ég að við verðum að breyta þessu kerfi. Við eigum að sjá til þess strax að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar og við eigum líka að sjá til þess að strandveiðarnar verði þannig að byggðirnar í landinu þurrkist ekki út. Við erum búin að búa til kerfi sem sogar til örfárra einstaklinga öll auðæfin. En gleymum því ekki að það er fullt af fólki í þessu kerfi, stálheiðarlegu fólki, sem reynir að gera hlutina vel og vanda sig. Við verðum að gæta þess að dæma það ekki vegna þess að það er að reyna að gera hlutina vel. En á sama tíma eru skussar sem fá þetta allt upp í hendurnar áreynslulaust og misnota allt kerfið. Við þurfum að sjá til þess að þeir verði ekki þarna lengur.