150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Það er ekki nema von að spurt sé hvort upphæð veiðigjalda sé rétt ákvörðuð þegar innheimt veiðigjöld hrökkva ekki einu sinni til að standa undir rekstri Hafrannsóknastofnunar. Í raun ættum við ekki einu sinni að sætta okkur við núverandi rekstur Hafró sem einhvers konar núllpunkt. Hafrannsóknir hafa aldrei fengið þann sess sem þeim ber þótt við búum í landi þar sem nýting auðlinda hafsins er mikilvægari grundvöllur undir samfélaginu en víðast hvar. Stjórnvöld hafa forgangsraðað í þágu rannsókna á nytjastofnum en grunnrannsóknum á lífríki hafsins almennt hefur ekki mátt sinna eins og best verður á kosið. Þessu verður að breyta og tryggja að framlög til rekstrar og rannsókna aukist á næstu árum.

Þótt umfjöllun Kveiks um Samherja hafi fjallað um framferði fyrirtækisins í Namibíu kom hún rækilega á dagskrá ákveðnum grundvallarspurningum um fiskveiðistjórnarkerfið hér á landi. Nú er orðið deginum ljósara að regluverk og eftirlit hefur verið allt of laust í reipunum. Þannig er hugtakið „tengdir aðilar“ túlkað með öðrum hætti gagnvart fyrirtækjum í sjávarútvegi en almennt er gert í atvinnulífinu þegar svokallað kvótaþak er reiknað út. Þannig geta aðilar sem samkvæmt öllum eðlilegum viðmiðum teljast vera tengdir aðilar safnað sér kvóta langt umfram það hámark sem sett er í lögum, samþjöppun aflaheimilda orðið miklu meiri en ákveðið var í þessum sal að væri ásættanlegt. Þessu þarf að breyta. Það þarf að skoða að lækka kvótaþakið, setja skýrari reglur um hvað teljist tengdir aðilar. En það sem munar kannski mest um er að það þarf að búa eftirlitsaðilum þær valdheimildir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að spilað sé eftir leikreglunum. Aðeins þannig byggjum við upp traust á kerfinu.