150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:41]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa góðu umræðu og ráðherranum fyrir góð svör. Það liggur fyrir að kvótakerfið hefur auðvitað verið mikil fyrirmynd annarra kerfa og hefur tryggt sjálfbæra nýtingu sjávarfangs við Ísland og nú eru flestallir íslenskir stofnar vottaðir. Kerfið hefur tryggt stöðugan rekstur. En það er eðlilegt að við ræðum og eigum að ræða hvernig auðlindin nýtist þjóðinni best, hvernig við náum pólitískri samstöðu um greinina sem virðist alltaf vera þrætuepli þrátt fyrir að menn hafa orðið sammála um að setja á veiðigjöld, þau áttu að vera sáttaleiðin til að ná meira fé út úr auðlindinni og það var ekkert að því. Það eru yfir 600 útgerðir sem greiða auðlindagjald. En þegar það var komið á var dregin lína í sandinn og við viljum ganga lengra. En við skulum bara halda áfram að ræða þetta kerfi. Það er alveg sjálfsagt. Það er þó krafa okkar allra að í enda dags njótum við öll réttlátrar afkomu sjávarútvegsins, sjómennirnir, samfélögin og fjölskyldurnar, að arðurinn af auðlindinni skili sér þangað. Þannig nýtist arðurinn þjóðinni allri og það er mjög mikilvægt. Tökum umræðuna. Það er alger óþarfi að gera það í einhverjum stórum stökkum, en umræða er góð, alltaf.