150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:50]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga. Með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem er aflamarkskerfi, hefur tekist að byggja upp öflugan, tæknivæddan og umhverfisvænan sjávarútveg sem færir okkur gríðarlegar útflutningstekjur á ári hverju, veltu, störf og afleidd störf um allt land. Allt frá því að framsal kvóta var gefið frjálst hefur ágreiningur verið um eiginlegt eignarhald hans. Lög og reglugerðir vitna ýmist í fiskinn sjálfan, nytjastofna eða veiðiheimildir og þykja hvorki skýra óskorað eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni né heldur hverjir fari með forræði og ráðstöfunarrétt hennar.

Við þessu er einfalt svar. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Framsókn hefur unnið og mun áfram vinna að því að óskorað og ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum Íslands muni lögfest í stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið mun ekki eitt og sér koma á sætti um fiskveiðistjórnarkerfið en það er eitt af fjölmörgum skrefum sem hægt er að taka. Á kjörtímabilinu 2013–2016 starfaði svokölluð sáttanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila sem gerði tillögur að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Langtímasamningar um veiðiheimildir sem undirstrika eignarhald þjóðarinnar og gefa sjávarútvegsfyrirtækjum tækifæri til langtímahugsunar og fyrirsjáanleika voru rauði þráðurinn í þeim breytingum sem lagðar voru til. Slíkar breytingar gætu verið annað skref. Á sama tíma hljótum við að velta því fyrir okkur hvort kvótaþakið, bæði á heildarveiðiheimildum og í einstökum tegundum, sé ekki of hátt því að kvótakerfið var ekki gert til þess að heimildir gætu þjappast saman á fárra hendur og að fáir einstaklingar gætu orðið of ríkir.

Frú forseti. Ég er ekki að tala um algera byltingu í fiskveiðistjórnarkerfinu heldur tímabærar og réttlátar umbætur í skrefum.