150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hárrétt frá þegar hann sagði að við gætum endalaust karpað um það hvort 33% væru of hátt eða of lágt. Það er svolítið punkturinn, stjórnmálamenn geta endalaust karpað um það. Aftur á móti eru til aðrar leiðir til að finna út hvert sé hæfilegt gjald og það er með leiguuppboði, eins og er í stefnu Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar og mér skilst að hafi einhvern tíma verið í stefnu Vinstri grænna en ég ætla ekki að fjalla mikið um hana þar sem ég hef ekkert sérstaklega mikið vit á henni, satt að segja. Það er kaldhæðnislegt að hlusta hérna á umræður frá annars vegar Sjálfstæðismönnum sem kenna sig við hægri og hins vegar Vinstri grænum sem kalla sig vinstri. Við Píratar erum auðvitað þarna á milli steins og sleggju og einhvers konar miðjumoðarar, geri ég ráð fyrir, alla vega sá sem hér stendur, ýmist of langt til vinstri fyrir hægri menn eða of langt til hægri fyrir vinstri menn. Hvað sem því líður er kaldhæðnislegt að hlusta á málflutning hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem bölsótast út í markaðshagkerfi fyrir að vera allt of langt til hægri en hlusta síðan á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fjalla um vankanta þess sama markaðshagkerfis sem þeir telja sig samt styðja á tyllidögum. Hæstv. ráðherra fór út í gagnrýni á markaðsleiðina sem er boðuð af alla vega þessum fyrrnefndu þremur flokkum, Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu, og sagði að þar þyrfti að grípa til einhverra aðgerða til að sporna við samþjöppun.

Virðulegi forseti. Það er alltaf tilfellið í litlum hagkerfum eins og okkar. Markaðshagkerfi er í grundvallaratriðum ágætisfyrirkomulag. En það er ekki fullkomið fremur en nokkuð annað. Það þarf alltaf eitthvað til þess að sporna við samþjöppun og það þarf í núverandi kerfi núna. Þess vegna eru 12% mörkin. Eflaust mættu þau vera lægri, eins og annar hv. þm. Vinstri grænna kom inn á. Það má vel vera og sjálfsagt að skoða það og sjálfsagt þyrftu að vera slíkar takmarkanir í kerfi sem myndi byggja á leiguuppboði. Það væri ekki nýtt og eru þar af leiðandi ekki rök gegn því að fara betri leið en þá sem nú er farin.