150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún hefur komið víða við og fátt nýtt í henni. Fyrst varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins til tímabundinna veiðiheimilda. Við höfum aldrei lýst okkur algerlega andvíg slíku, samanber stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þannig að fullyrðingar um annað eru rangar. Annað sem ég vil leiðrétta hér eru fullyrðingar um lækkun veiðigjalds með þeim breytingum sem gerðar voru, og er tuggið hér upp af fulltrúum Samfylkingar aftur og aftur og Viðreisn tekur undir. Ef óbreytt lög hefðu verið látin gilda hefði veiðigjaldið orðið 2 milljarðar. Nýju lögin skila veiðigjaldi upp á 5 milljarða. Hingað til hef ég haldið og treyst því að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að fimm mínus tveir eru þrír. Ég bið menn bara að átta sig á því.

Varðandi útboðsleiðina, já, það eru skiptar skoðanir um hana. En þetta er kannski ekki jafn ólíkt fyrirkomulaginu og við erum með í dag að því leytinu til að menn eru farnir að tala um að það þurfi að reisa girðingar og kalla það útboðsskilyrði o.s.frv. sem pólitíkusar eða stjórnmálamenn ætli að setja. Í dag gengur þessi réttur í viðskiptum á frjálsum markaði en ætlum við með útboðsleiðinni að láta þá stjórnmálamenn með einhverjum hætti stýra því hvernig þau viðskipti ganga fyrir sig? Ég kalla eftir útfærslum á þessari leið. Ég er alveg tilbúinn til að skoða alla hluti í þeim efnum, jafnt tímabundna úthlutun sem aðra þætti. Útfærslan á útboðsleiðinni, hugsunin á bak við hana, áhrifin af henni, hefur bara aldrei verið leidd fram. Þeir sem hafa haft fyrirvara á henni vilja sjá útfærslur á þessu, áhrifin af henni o.s.frv., vegna þess að við vitum hvað við höfum. (Forseti hringir.) Staðreyndin er sú að stjórnmálaöfl sem hafa borið fram þessa stefnu hafa hingað til ekki notið mikillar hylli í undirtektum hjá þeim sem þeir hafa gengið til móts við með þessa stefnu. (Gripið fram í.) Það eru fleiri en Sjálfstæðismenn.