150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Það er gott að heyra umræðu um matvæli snúast í auknum mæli um það hversu mikilvægt það er að auka stuðning við grænmetisrækt og sérstaklega ylrækt. Hér á landi ætti að vera skýr stefna: Að rækta miklu meira magn grænmetis innan lands en ekki síður fjölbreyttari tegundir grænmetis og ávaxta vegna þess að við búum við þær einstöku aðstæður að geta ræktað suðrænar tegundir hér upp við heimskautsbaug. Þær ætti að nýta. Ávinningurinn af slíkri stefnu er margþættur, lýðheilsa, loftslag, það dregur úr óþörfum innflutningi. Það væri hægt að telja upp langan lista af ábata. Við megum samt ekki láta við það sitja að koma á nýjum ívilnunum heldur þarf að skoða kerfið í heild. Hluti af því er að taka mið af áhrifum af dýrahaldi þannig að verðlagning dýraafurða endurspegli betur það álag sem framleiðsla þeirra setur á umhverfi og loftslag. Þannig er hægt að hjálpa neytendum að færa sig yfir í grænni kostinn. Hér mætti t.d. nefna einhvers konar kjötskatt sem gæti svo verið nýttur til að styðja við grænmetisframleiðslu. Mannkynið þarf að breyta öllum sínum lifnaðarháttum til að takast á við loftslagsbreytingar. Vissulega er losun vegna matvælaframleiðslu ekki stærsti þátturinn í losun gróðurhúsalofttegunda. Landbúnaður ber þó ábyrgð á um 12% af losun Íslands og er sá stóri þáttur losunarbókhaldsins sem hver og einn einstaklingur á einna auðveldast með að hafa bein áhrif á, bara strax með næstu máltíð. Það tekur lengri tíma að byggja borgarlínur og skipta út bensínbílum. Þetta er bara hægt að gera strax. Þegar kemur að því sem einstaklingar geta breytt sem neytendur verða stjórnvöld að gera sitt til að styðja við umskiptin.