150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseta. Ég ætla í byrjun að leiðrétta það sem kom fram áðan í einni ræðu, að opnun á tollum á grænmeti hefði liprað fyrir grænmetisframleiðslu á Íslandi. Það kom fram í fyrra að hlutdeild íslensks grænmetis í sölu á Íslandi er minni en hún var fyrir fimm árum síðan og menn eru fastir í framleiðslu á ákveðnum vörum af því að þar var tollaleiðréttingin gerð. En ég ætlaði að vera miklu jákvæðari en þetta vegna þess að þarna eru tækifærin okkar. Þau eru í ylræktinni, í fiskeldinu, bæði landeldi og sjóeldi, og það eru í sjálfu sér engin takmörk fyrir því hvað við getum gert á þessu sviði, þ.e. ef við sköpum skilyrði fyrir þessi fyrirtæki til að starfa eðlilega. Ég er á því að þar sem grænmetisframleiðsla er stóriðja á Íslandi, hún er t.d. stóriðja á Suðurlandi, þar eru fleiri við störf í þeirri atvinnugrein en í álveri eins og á Reyðarfirði, þá eigum við auðvitað að selja þessum aðilum rafmagn á sömu kjörum. Þá eru engin takmörk fyrir því hvað við getum gert. Við getum framleitt grænmetistegundir sem ekki eru framleiddar hér nú og ég vakti athygli á því í ræðu mjög nýlega að Hollendingar eru farnir að rækta vanillu undir gleri vegna þess að vanilluuppskera brást í Bangladess. Grammið af vanillu fór fram úr grammi á silfri í verði fyrr á árinu. Þarna er tækifæri fyrir bændur að elta silfur og auka verðmæti.

Hvað varðar fiskeldið þá eigum við þar líka ótakmarkaða möguleika. Ég vil bara minnast á eitt sem er sóunin sem við erum að sýna. Það lekur heitt vatn niður Ölfusið allan sólarhringinn, alla daga, öll ár, sem er ónýtt. Það væri hægt að nota bæði í tjarnir fyrir alls konar fiska og fyrir grænmetistegundir sem við framleiðum ekki. (Forseti hringir.) Þarna eru tækifærin og við eigum að halda áfram og gera alvörustefnu í þessu.