150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

67. mál
[14:42]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Ásamt mér flytja þetta mál Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason, Birgir Þórarinsson og Oddný G. Harðardóttir. Hornafjarðarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins, eins og öll önnur samgöngumannvirki gera að vísu, og mikilvægt er að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs og uppbyggingar atvinnulífsins eins og fiskeldis á Austurlandi. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skoða hvort til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.

Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn að millilandaflugvöllum, til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti orðið. Í greinargerðinni kemur fram að gera þurfi endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi. Í greinargerðinni eru möguleikar og kostnaðaráhrif þessara ráðstafana metin en í aðalatriðum eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til.

Við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015– 2018 sagði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar í nefndaráliti vert að skoða að veita minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda m.a. á Hornafirði. Það gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna, auk þess að minnka álag á Keflavíkurflugvelli og auka öryggi í flugi yfir landið. Þá áréttaði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar málefni Hornafjarðarflugvallar í áliti sínu við vinnslu tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Sagði meiri hlutinn að veita ætti minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda á Hornafirði. Slíkt gæti hjálpað mikið til við dreifingu ferðamanna, auk þess sem það minnkar álag á Keflavíkurflugvelli og eykur öryggi í flugi eins og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur bent á í skýrslum sínum.

Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að skoða hvort nægjanlegur búnaður og aðstaða sé á Hornafjarðarflugvelli til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi til að treysta enn frekar atvinnulíf á Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Eins og ég kom inn á hefur Alþingi nú þegar samþykkt í tvígang þau tilmæli til samgönguyfirvalda í gegnum samgönguáætlun að rétt sé að byggja upp þá mikilvægu samgönguinnviði sem Hornafjarðarflugvöllur er. Þá er í sömu samgönguáætlunum sem og öðrum áætlunum ríkisins, eins og landsskipulagsstefnu, byggðaáætlun, innviðaáætlun og áfram mætti telja, talað um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið, draga úr kolefnisspori samgangna og draga úr álagi á vegum vegna þungaflutninga. Uppbygging Hornafjarðarflugvallar uppfyllir öll þau markmið sem við skreytum allar okkar áætlanir með.

Áður hef ég nefnt návígi flugvallarins við Vatnajökulsþjóðgarð sem komst inn á heimsminjaskrá UNESCO síðasta sumar. Þá eru uppi áform um uppbyggingu á stóru ferðaþjónustuverkefni í Lóni og svo er það hin nýja stóra atvinnugrein landsbyggðarinnar, laxeldið. Í um einnar klukkustundar akstursfjarlægð frá Hornafjarðarflugvelli er um 100 tonnum af laxi slátrað fimm daga vikunnar sem er svo keyrt með flutningabílum alla leið til Keflavíkurflugvallar. Það yrði því mikið hagræði fyrir alla, hvort sem er fyrir vegina, umhverfið eða samkeppnisstöðu atvinnulífsins, ef flugvélar sem gætu flutt 50–150 tonn í frakt lentu á Hornafjarðarflugvelli. Ég held að það sé óumdeilt að allar samgönguframkvæmdir skapi aukinn hagvöxt og betri lífsskilyrði og fjölgi tækifærum.

Samgönguuppbygging okkar hefur alltaf verið á þá leið að elta þörfina í stað þess að byggja upp til örvunar tækifæra. Ég tel þörfina fyrir Hornafjarðarflugvöll sem millilandaflugvöll vera komna, bæði vegna þeirrar uppbyggingar sem er orðin í atvinnulífinu á Suðausturlandi og þeirra öryggissjónarmiða sem ég nefndi áðan. Við vitum samt ekki um allar þær jákvæðu afleiðingar sem uppbygging flugvallarins mun leiða af sér. Ég óska eftir að málið gangi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og verði helst afgreidd þaðan samhliða samgönguáætlun.