150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

lýðskólinn á Flateyri.

[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í gær var þingflokksfundadagur í þinginu. Við í Viðreisn ákváðum að halda okkar þingflokksfund fyrir vestan og fórum vestur á sunnudaginn. Margt hvílir á herðum Vestfirðinga, hvort sem við erum að ræða um þá sem búa á Flateyri eða annars staðar á Vestfjörðum. Eitt af þeim málum sem mikil óvissa ríkir um er lýðskólinn. Mér finnst reyndar ágætt að hæstv. fjármálaráðherra, hinn síungi fjármálaráðherra, heyri þetta líka, að skilaboðin til okkar sem erum í stjórnmálum — ég er að reyna að forðast að tala um stjórn og stjórnarandstöðu, það er ekki ákall eftir því — eru ákall eftir því frá fólkinu að vestan og víða annars staðar að teknar séu ákvarðanir, ekki skipaðir hópar, nefndir o.s.frv., heldur að óvissu og óöryggi sé eytt. Það er hægt að nefna það sem kom fram hjá björgunarsveitunum og fólkinu á Flateyri, að byrja í sumar eða sem allra fyrst með hafnarframkvæmdir þannig að fólkið okkar fyrir vestan fari ekki inn í enn einn veturinn með þá óvissu sem veðurfarið hefur oft í för með sér.

Mig minnir að þau hafi sagt að aðalfundur lýðskólans yrði um næstu helgi. Ekki hafa borist skýr svör frá ráðuneyti menntamála um lýðskólann sem hefur haft gríðarlega mikilvæg og jákvæð áhrif á alla innviði á Flateyri, skipt samfélagið allt miklu máli og ekki síst á þessum tímum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að samið verði við lýðskólann. Hann er ekki bara fyrir Flateyringa, þetta er mikilvægt verkefni og úrræði fyrir allt menntakerfið, formlega sem óformlega, fyrir alla ólíku einstaklingana sem búa í samfélagi okkar. Verður þetta ekki gert skýrt þannig að fólkinu í lýðskólanum fyrir vestan verði svarað?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Verður það ekki örugglega gert? Verður ekki samið til þriggja eða fimm ára eða jafnvel lengur við lýðskólann á Flateyri til að reyna (Forseti hringir.) að eyða einu óvissuatriðinu út af borðinu hjá fólkinu þar?