150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

lýðskólinn á Flateyri.

[13:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég fagna því og hef eindregið stutt löggjöfina um lýðskóla en það er líka ánægjulegt að stundum sprettur eitthvað sjálft úr íslenskum jarðvegi. Til að mynda var lýðskólinn á Seyðisfirði, magnað fyrirbæri líka, farinn af stað löngu áður en löggjöfin kom til. Löggjöfin er þó ákveðinn og mjög mikilvægur vegvísir og ég fagna því enn og aftur. Þess þá heldur hefði ég haldið að það væri auðveldara fyrir ríkisstjórnina að semja núna strax og segja það skýrt. Ég saknaði þess í máli ráðherra að við fengjum skýrt fram hvort samið yrði við lýðskólann eða ekki. Það er gott að öryggi verði tryggt en hvað þýðir það? Þýðir það til eins árs, þýðir það til tveggja eða þriggja ára? Hvaða fjárhæðir verða? Verður samið?

Þetta er einföld spurning: Verður samið á allra næstu dögum við lýðskólann til að eyða óvissu?

Reynum að eyða sem flestum óvissuatriðum Vestfirðinga. Lýðskólinn er hluti af því. Gerum framtíðina skýra og bjarta fyrir lýðskólann og það gerist með því að samið verði við hann. Síðan getum við tekið upp ýmis önnur málefni sem brenna á Vestfirðingum (Forseti hringir.) eða öðrum í landinu en þetta mál er á dagskrá núna og ég bið hæstv. ráðherra að svara með jái eða neii: Verður samið á næstunni við lýðskólann?