150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

hlutdeild landsbyggðar í auðlindatekjum.

[13:52]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og áhuga hans á málefninu. Ég vil þó segja að ég tel að byggðastefnan sé oft framkvæmd með öfugum formerkjum, að í stað þess að nýta sér staðbundna þekkingu og í stað þess að nýta nálægð stjórnvalds við viðfangsefnin er það stundum fjarlægt og reynt er að setja heimafólk upp að vegg sem þiggjendur. Nýjasta dæmið er fyrirhugaður hálendisþjóðgarður. Hann nær yfir sveitarfélög sem mörg hver njóta mikillar hylli ferðamanna og hvar miklar tekjur verða til fyrir þjóðarbúið. Í stað þess að sveitarfélögin njóti í meira mæli tekna af ferðamönnum og geti með þeim byggt upp innviði og sinnt viðkvæmum og verðmætum víðernum í umdæmum sínum á að búa til fjarlægt stjórnvald og veifað er loforðum um fjölda starfa sem eiga að koma í staðinn. Þessi aðferð er bæði niðurlægjandi og niðurdrepandi.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða hvort ekki megi nýta peningana betur með því að láta landsbyggðina njóta þess auðs sem skapast á svæðunum og treysta fólkinu fyrir auknum verkefnum. Ég nefni í því dæmi möguleika á að nota virðisaukaskattskerfið og það er hægt að lesa orðið mikið í gegnum bókhaldskerfi fyrirtækja hvaðan fjármunirnir koma.