150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

styrkir til nýsköpunar.

[14:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hér var farið yfir nokkur atriði er snúa að nýsköpunarumhverfinu og m.a. spurt hvort það sé kvóti. Við þurfum að horfa á heildarmyndina. Við setjum gífurlega fjármuni í endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar, sem betur fer. Þar er fjármunum vel varið. Við erum búin að hækka þakið sem skiptir vissulega stærri fyrirtæki meira máli en þau smærri vegna þess að það eru meiri líkur á að þau nái upp í þakið en þau smærri, en við höfum gert breytingar með tilliti til þess hvort það sé kvóti á stuðning og að fyrirtæki þurfi bara að vera X stór til að fá stuðning.

Við erum að vinna að ýmiss konar lagabreytingum til að einfalda þetta umhverfi, auka mögulega einhvers konar ívilnanir, breyta í skattalegu tilliti til að regluverkið taki í meira mæli mið af þessu umhverfi sem er að mörgu leyti ólíkt því hefðbundnara sem við þekkjum betur. Við erum með í vinnslu endurskoðun á því stuðningsumhverfi sem ríkið er með þegar kemur að nýsköpun. Við setjum marga milljarða, aðeins breytilegt eftir því hvernig er reiknað, u.þ.b. 11–14 milljarða, í stuðning til nýsköpunar á ári hverju. Við þurfum að skoða hvort þeir fjármunir eru á réttum stað. Við erum að vinna að stofnun Kríu, hvatasjóðs vísifjárfestinga sem er einmitt hugsaður fyrir þessa sprota þar sem eru góðar hugmyndir og þar sem ríkið kemur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, með fagfjárfestum þegar þeir sjá tækifæri í hugmyndum sprotafyrirtækja og annarra nýsköpunarfyrirtækja. Við erum að koma á fót hugveitu þar sem verða fulltrúar okkar besta fólks í þessum geira í beinu samtali við bæði mig sem nýsköpunarráðherra og sömuleiðis fjármálaráðherra þar sem er einmitt pláss fyrir svona samtal.

Þetta snýst um það að horfa á alla myndina, allar stuðningsaðgerðir sem við erum með og umhverfið í heild sinni. Þegar farið var yfir það, einmitt með þeim sem helstu hagsmuni hafa og þeim sem eru í grunnrannsóknum og annars staðar, var niðurstaðan að Kría, hvatasjóður vísifjárfestinga, væri mikilvægasta skrefið til að bæta nýsköpunarumhverfi á Íslandi. Þess vegna erum við að setja fjármuni í það á sama tíma og við erum þó (Forseti hringir.) að bæta við fjármunum annars staðar.

Það er vissulega rétt að við höfum ekki sett viðbótarfjármagn í Tækniþróunarsjóð og ég veit að þar af leiðandi komast færri að þegar umsóknir verða fleiri. Það er nokkuð sem litið er til en það er ekki hægt að horfa fram hjá öllu hinu sem verið er að gera.