150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að vekja máls á þessu … verkefni, skulum við segja, sem við öll höfum, þ.e. að tryggja réttlæti í samfélaginu og finna leiðir til þess að menn geti lifað af þeim tekjum sem þeir hafa á hverjum tíma. Í því sambandi er athyglisvert að taka þessa 10 milljarða sem hv. þingmaður er þarna með undir vegna þess að ég er ekki sannfærður um að það að ákveða í einu vetfangi að taka 10 milljarða og deila þeim út nánast í hugsunarleysi, óháð því hvort það liggi fyrir að þeir einstaklingar sem þar eru undir þurfi á fjármunum að halda sér til framfærslu, sé endilega besta leiðin. Það þyrfti a.m.k. einhverja betri greiningu á þörf áður en farið væri í þessa aðgerð. Sé verkefnið eða hugmyndin að reyna fremur að gagnast námsmönnum sérstaklega, þá sé ég það kannski miklu frekar sem verkefni að endurbæta námslánakerfið meira en verið er að gera ráð fyrir núna, þá annaðhvort með auknum niðurfellingum eða styrkjum, þannig að það væru fyrst og fremst þeir sem eru í námi sem hefðu hag af því. Hins vegar vil ég ítreka það að ég tel að umræðan sé af hinu góða því að markmið hv. þingmanns, að finna leiðir til að bæta stöðu námsmanna eins og ég sé þetta svona aðallega og að einhverju leyti annarra samfélagshópa, er sannarlega jákvætt og við eigum auðvitað að halda áfram á þeirri vegferð.