150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

betrun fanga.

24. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar ásamt breytingartillögu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá Fangelsismálastofnun, Rauða krossinum, Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi, Afstöðu, félagi fanga á Íslandi og Vernd, fangahjálp. Nefndin fékk umsagnir frá þessum sömu aðilum. Enn fremur komu fulltrúar dómsmálaráðuneytisins á fund nefndarinnar.

Málefni fanga, aðbúnaður, heilbrigðismál, tækifæri til menntunar og uppbyggingar meðan á fullnustu refsingar stendur og aðlögun að samfélaginu að lokinni afplánun eru mikilvæg málefni sem sífellt þarf að hafa til endurskoðunar og úrbóta. Umsagnir sem bárust nefndinni voru allar jákvæðar um tilgang tillögunnar og fögnuðu umsagnaraðilar umræðu um málefnið en komu eins og gengur með ýmsar ábendingar. Það kom t.d. mjög skýrt fram að mikil áhersla var lögð á það að tillögur starfshópsins sem gert er ráð fyrir í tillögunni yrðu kostnaðarmetnar og að fjármagn fylgdi þeim verkum sem lagt yrði til að yrðu framkvæmd, ekki síst ef lagt yrði til að tryggja ætti öllum föngum einstaklingsbundna meðferðaráætlun.

Á fundum nefndarinnar kom fram að ýmislegt hefur verið gert á þessu sviði eins og nánar er vikið að í nefndarálitinu. En að mati nefndarinnar er þó margt ógert og frekari umbóta þörf. Mikilvægt sé að hafa sýn yfir málaflokkinn í heild sinni þannig að heildstæðri stefnu sé fylgt frá refsidómi til félagslegrar aðlögunar að afplánun lokinni. Þannig skuli fangelsismálakerfið ekki byggt á refsistefnu heldur meðferðar- og endurhæfingarstefnu sem taki mið af samsetningu og þörfum þeirra sem þurfa að afplána refsidóma, en langstærstur hluti þeirra á við verulegan fíkni- og félagsvanda að stríða.

Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið þess efnis að hugtakið betrunarstefna næði ekki nógu vel yfir fyrirætlanir tillögunnar og færi því betur á því að tala um meðferðar- og endurhæfingarstefnu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að í stað betrunar verði talað um meðferðar- og endurhæfingarstefnu.

Við umfjöllun málsins var mikið fjallað um einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun. Skylda til að útbúa meðferðar- og vistunaráætlun fyrir hvern fanga var afnumin með gildandi lögum um fullnustu refsinga en í lögunum er kveðið á um að meðferðaráætlun skuli gerð sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Við meðferð málsins kom fram að gerð meðferðar- og vistunaráætlunar fyrir alla fanga hafi verið hætt vegna skorts á fjármagni en það komu líka fram sjónarmið um að það sé mjög mikilvægt að allir fái slíka áætlun enda þótt þörfin kunni að vera mismikil. Nefndin telur ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að binda innkomu- og þjónustumat í lög sem og einstaklingsbundna meðferðaráætlun.

Talsvert var fjallað um menntamál fanga. Nefndin fékk m.a. á sinn fund skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands en skólinn þjónustar einmitt fanga. Við umfjöllun nefndarinnar var lögð áhersla á að menntun væri málefni sem varðaði allt samfélagið og alla sem þar byggju, líka þá sem dveldu í fangelsum. Stór liður í endurhæfingu er einmitt menntun, hvort sem það er bóknám, starfsnám eða verknám. Umsagnaraðilar telja að hægt sé að gera mun betur til að efla nám í fangelsum með því að auka fjölbreytni, sérstaklega í verknámi, bæta kennsluaðstöðu og skapa í bóknáminu fjölbreyttari kennslufræði, beita fleiri aðferðum sem henta þeim sem fangelsin sitja betur. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að leitað sé leiða til að bjóða upp á námsleiðir sem og námskeið sem séu til þess fallin að veita föngum þá menntun og réttindi sem nýtast þeim að lokinni afplánun. Jafnframt sé mikilvægt að kanna hvort hægt sé að bjóða föngum upp á aukinn stuðning við nám en sá hópur sem sækir nám í fangelsum er einmitt á mjög misjöfnum stað þegar horft er til náms og aðstöðu til náms.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að mikilvægt sé að það sé ríkur stuðningur við fanga þegar þeir ljúka afplánun. Nefndin tekur heils hugar undir þau sjónarmið og leggur til að starfshópurinn skoði nokkra þætti sérstaklega, í fyrsta lagi hvort tilefni sé til að rýmka skilyrði fyrir að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu og beita úrræðinu í ríkara mæli og í öðru lagi að skoða þær hindranir sem einstaklingar standi frammi fyrir að lokinni fangelsisvist en þrátt fyrir að aðstoð sé í boði, m.a. hjá Rauða krossinum og Vernd, sé hætta á að fangar komi að lokuðum dyrum, sérstaklega varðandi vinnu og húsnæði. Loks bendir nefndin á mikilvægi þess að þeir sem mesta reynslu hafa af afplánun og félagslegri aðlögun að henni lokinni séu virkir þátttakendur í starfshópnum til jafns við þá sem koma að málefninu af hálfu opinberra aðila. Nefndin leggur ríka áherslu á að starfshópurinn horfi til málaflokksins í heild, skoði feril afplánunar frá upphafi og hvernig einstaklingi er fylgt eftir út í samfélagið að nýju.

Í ljósi þess hve víðfeðmt verk starfshópurinn á fyrir höndum leggur nefndin til að frestur verði framlengdur samkvæmt tillögunni til 1. janúar 2021. Þá leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt en gerir þó á henni breytingar til samræmis við það sem að framan er greint. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra í samráði við félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun heildstæðrar meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu. Starfshópurinn leggi m.a. til nauðsynlegar breytingar á lögum og greini fjárþörf til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. janúar 2021. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Síðan er gerð tillaga um að breyta fyrirsögninni í samræmi við það sem fram kom hér á undan. Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um meðferðar- og endurhæfingarstefnu í málefnum fanga.

Undir þetta rita allir nefndarmenn, Páll Magnússon, Jón Steindór Valdimarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórarinn Ingi Pétursson. Þeir Páll Magnússon og Birgir Ármannsson undirrita álitið með fyrirvara.

Ég legg svo að sjálfsögðu til að þessi tillaga fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þingsal.