150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir svör hennar og get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði hér áðan varðandi fámennu skólana. Búseta hefur vissulega áhrif á jafnrétti til náms eins og staðan er í dag, en ég er þeirrar skoðunar að svo eigi ekki að vera og það þurfi ekki að vera þannig.

Ég ætla að gera fjarkennslu að umtalsefni. Víða er unnið gott starf til að styðja við fjarkennslu sem gerir nemendum kleift að sækja það nám sem þeir óska sér úr heimabyggð sinni. Fjarkennsla er einnig tiltölulega einföld í framkvæmd í nútímasamfélagi en er þó þeim takmörkunum háð að hún getur orðið einhliða og skert félagslega hluta námsins þegar nemi situr heima við tölvu og hlustar á fyrirlestur sem þegar hefur farið fram eða jafnvel þótt hann sé í beinni útsendingu. Tækninni fleygir hins vegar hratt fram og komin eru fram úrræði fyrir fjarkennslu þar sem tekið er tillit til mikilvægis félagslega hluta námsins. Gott dæmi um það er vélmennið Fjarvera sem er í Háskólanum á Akureyri en slíkt tæki er m.a. að finna í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þessi tæki gera að verkum að kennarar geta ferðast um stofuna, verið nemendum sýnilegir.

Í vetur höfum við verið óþægilega minnt mikið á hversu mikil áhrif náttúruöflin hafa á líf okkar allra. Eitt af því sem gerist þegar veður eru válynd er að skólahald fellur oft niður, sérstaklega í dreifbýlinu. Í heimabyggð minni gerðist það í óveðrinu í desember að ófært var á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðargöngunum var lokað í fyrsta sinn. Það varð til þess að margir nemendur komust ekki á milli í Menntaskólann á Tröllaskaga til að sækja sitt nám. En nemendur dóu ekki ráðalausir heldur komu sér fyrir á bókasafni Fjallabyggðar í Siglufirði og tóku þátt í gegnum Skype þar sem kennarinn var staddur á Dalvík. Það sýnir að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og mikilvægt er að vera skapandi í hugsun þegar kemur að kennslu og kennsluumhverfi. Það þarf ráðuneytið líka að vera.

Mikilvægast er að tryggja nemendum fjölbreytni til að geta stundað það nám sem hugur þeirra stendur til hvar og hvenær sem þeir vilja. Til þess þarf m.a. öflugt húsnæðisúrræði víða um land fyrir bæði framhalds- og háskólanema og ég verð að segja að lokaorð ráðherra gáfu mér von um að skólahald og nemendur um allt land geti blómstrað vegna þess að það skiptir máli að láta verkin tala í þessu samhengi.