150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[16:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er mér sérstakt ánægjuefni að þessi tillaga okkar Pírata nái þetta miklum stuðning í þinginu. Þessi málaflokkur hefur verið heimilislaus mjög lengi og það er mjög gott að í fjármálaráðuneytinu skuli farin af stað vinna. Við áttum gott samstarf í efnahags- og viðskiptanefnd um að gera breytingar þannig að það væri meiri sveigjanleiki fyrir ráðuneytið að gera þetta. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sinni þessu mjög vel vegna þess að það er ekki ásættanlegt að við höldum áfram eins og við höfum gert undanfarin ár. Við höfum verið með þessi mál í ólestri. Það eru rúmlega 1.500 gagnagrunnar sem enginn hefur nákvæma yfirsýn yfir þannig að þarna er tækifæri til að gera betur og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu.