150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:24]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé sett fram enda mikilvægt að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að tvennu. Í fyrsta lagi varðandi 4. gr. um hagsmunaverði. Ráðherra tekur dæmi um að þetta nái ekki til þess ef maður hittir einhvern úti á götu og talar við hann. Eru einhverjar siðareglur eða einhver ábyrgð til að tryggja að það sé ekki verið að hitta hagsmunaverði fyrir utan ráðuneytin eða óopinberlega?

Önnur spurningin er varðandi 3. mgr. 7. gr., að það eigi ekki að birta opinberlega þann hluta skránna sem tekur til skrifstofustjóra, sendiherra og aðstoðarmanna ráðherra, hvort ráðherra hafi ekki áhyggjur af því að þetta verði til þess að þessir aðilar skrái ekki á sig gjafir eða að ráðherra skrái gjafir á þetta starfsfólk til að koma í veg fyrir að þeirra eigin hagsmunaskráning sé birt.