150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er auðvitað vandrataður meðalvegur í þessu sem hv. þingmaðurinn spyr um. Þarna er í raun gert ráð fyrir að þessar gjafir séu tilkynningarskyldar og síðan sé það forsætisráðuneytisins og síðan hvers ráðuneytis, í tilfelli þeirra aðila sem hér um ræðir, að hafa eftirlit með því að þetta sé tilkynnt og skráð þannig að þær upplýsingar liggi fyrir en þær séu ekki birtar sjálfkrafa. Þarna erum við að feta, getum við sagt, meðalveg milli friðhelgi einkalífsins hjá fólki sem ekki hefur beinlínis valið að standa á hinu opinbera sviði og hinna sem gera það sem beinlínis æðstu handhafar framkvæmdarvalds og sæta lögum um ráðherraábyrgð. Þarna er ákveðinn meðalvegur sem við höfum valið að fara. Sama gildir um maka og ólögráða börn, við leggjum til að þær upplýsingar verði ekki birtar en þá reynir auðvitað á það sem við getum kallað innri regluvörslu Stjórnarráðsins í þessum málum.