150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Fólk sem er falið vald stendur ítrekað frammi fyrir því að vera freistað til að beita almannavaldi í þágu sérhagsmuna. Það mætti segja að fyrir tíma samfélagsmiðlanna, þegar miðlarnir voru tiltölulega miðlægir, og tiltölulega samþjappaðir, hafi viðskiptamódelið virkað sæmilega vel, að beita almannavaldi í þágu sérhagsmuna sem síðan aðstoðuðu valdhafana við að ná aftur almannavaldinu með atkvæðaveiðum, sama hvort það var í formi peningagjafa til flokkanna eða annars. Nú hafa verið stigin skref í átt að því að takmarka þetta. Hér eru stigin ákveðin góð skref í átt að því að gera hlutina þannig að sú freisting sem valdhafar standa frammi fyrir sé síður til staðar út af því að almenningur mun geta séð hvernig þeir fara með almannavaldið. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan er það þingið sem setti sér ákveðnar reglur varðandi hagsmunaskráningu og slíkt, á formi frá GRECO. Við uppfyllum ekki öll CRECO-skilyrðin. Að hvaða leyti uppfylla þessar tillögur forsætisráðherra GRECO-skilyrðin að því er lýtur að framkvæmdavaldinu?