150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég ítrekaði áðan held ég að það sé mikilvægt að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ræði sérstaklega aðstoðarmenn. Ég vil líka ítreka það að eðli starfa þeirra er aðeins annað en þeirra sem eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds. Þeir hafa ekki beint vald í þeim skilningi. Þeir undirrita ekki bréf. Þeir taka ekki ákvarðanir formlega séð. (Gripið fram í.) Vissulega er þarna vandrataður meðalvegur en við teljum að eðli starfsins sé annað en þeirra sem eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins.

Hvað varðar eftirlitsnefndina var það niðurstaða okkar að okkur fannst það þyngra í vöfum þegar við erum að koma með þessa löggjöf. Við teljum að við getum hæglega staðið undir því að veita þá ráðgjöf sem þarf og hafa það eftirlit sem þarf. En eins og ég kom að í ræðu teljum við líka mikilvægt að meta framkvæmd þessara laga eftir tiltölulega skamman tíma, til að mynda hvort við teljum eðlilegt að útvíkka gildissvið þeirra, sem ég tel vel koma til greina. Það má segja að þetta sé fyrsta skref í breyttu vinnulagi. Þá værum við væntanlega að tala um umfangsmeira hlutverk. En þetta var niðurstaða okkar, við töldum að þetta væri hreinlega einfaldara í framkvæmd og greiddi þannig fyrir breytingu.