150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar undanþágurnar sem hv. þingmaður spyr hér um er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra veiti öðrum ráðherrum undanþágu. Hvað þá með hæstv. forsætisráðherra? Hann á auðvitað staðgengil sem getur veitt forsætisráðherra undanþágu ef forsætisráðherra finnur einhvern tíma í sólarhringnum til að fara að sinna listsköpun á gamals aldri, það gæti hugsanlega gerst þó að það sé ekki sérlega líklegt. En hvað varðar starfsval og forseta Íslands vil ég segja að þetta frumvarp nær til æðstu handhafa framkvæmdarvalds í Stjórnarráð Íslands og það var tekin ákvörðun um að það væri í raun og veru viðfang þessa frumvarps, þannig að forsetinn er ekki hluti af því. Það var bara ákvörðun sem var tekin, kannski líka vegna þess að við teljum mikilvægt að um framkvæmdarvaldið innan Stjórnarráðsins ríki töluvert mikið gagnsæi. Það er ekkert útilokað að forsetinn óski sjálfur eftir því að sömu reglur gildi um samskipti hans.