150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu finnst mér að ef það er á annað borð verið að tala um gagnsæi og hagsmunaskráningu og að efla það sé æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins, forseti Íslands, líka með. Þetta kemur allt til skoðunar. Það sem truflar mig þó mest í þessu frumvarpi eru þessir hagsmunaverðir. Það hljómar mjög illa í mín eyru. Hérna er sagt að með hagsmunaverði sé átt við einstakling sem talar máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum. Þarf lögmaður að fara að skrá niður hvert skipti sem hann talar við stjórnvald? Eða hvað er átt við með því? Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þessar takmarkanir séu í það mesta. Ég hef aldrei verið neinn aðdáandi GRECO, tel að þar séu eintómir tæknikratar sem hafi enga tilfinningu fyrir lýðræðinu. Kannski erum við á þeirri þróun, (Forseti hringir.) við eltum allar vitleysur frá Evrópu, en ég held að við ættum að íhuga það að fara mjög varlega í þetta.