150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

almannatryggingar.

77. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Ég mun flytja hérna í röð þrjú frumvörp frá Birni Leví Gunnarssyni sem allir þingmenn Pírata standa jafnframt að baki. Fyrsta málið varðar breytingu á lögum um almannatryggingar og hefur að gera með afnám skerðingar lífeyris vegna miskabóta.

Með frumvarpi þessu er lagt til að miskabætur sem einstaklingum eru dæmdar komi ekki til skerðingar á lífeyri þeirra samkvæmt lögunum. Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi og er lagt fram að nýju óbreytt.

Markmið frumvarpsins er að styðja við öryrkja og ellilífeyrisþega með því að koma í veg fyrir skerðingu lífeyris vegna miskabóta sem þeim eru dæmdar vegna áfalla sem þeir lenda í. Þau tilvik sem geta orðið til þess að einstaklingi verði greiddar miskabætur eru ófyrirsjáanleg. Ekki er því um eiginlegan kostnað að ræða fyrir ríkissjóð heldur verður kostnaðurinn í formi þess að ekki kemur til endurgreiðslu á lífeyri vegna dæmdra miskabóta. Er kostnaður því ekki meiri en hefði verið hefðu miskabætur ekki verið dæmdar.

Það sem þetta þýðir í rauninni er að við erum að efla réttindi lífeyrisþega án þess að það kosti ríkissjóð nokkuð. Þetta er einföld breyting. Það er lagt til í frumvarpinu að þessi breyting verði 1. janúar 2020, sem er náttúrlega þegar liðinn en málið var lagt fram í haust. Það væri alveg hægt að klára þetta fyrir vorið, áður en þingið fer í sumarfrí, það þarf bara viljann til þess. Þetta kostar ríkissjóð ekki neitt en styrkir réttindi lífeyrisþega. Sjáum hvað gerist. (Gripið fram í.)

Ég legg til að málið gangi til — hvað segir forseti? Er það velferðarnefndar frekar en efnahags- og viðskiptanefndar? Til velferðarnefndar. Ég trúi ekki öðru en að þetta komist á dagskrá og þá fáum við bara fram sjónarmið, ef ríkið vill halda því fram að þetta kosti eitthvað. Þetta kostar ekki neitt og hvers vegna er þá ekki hægt að afgreiða málið á þessu þingi?