150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

kosningar til Alþingis.

81. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Eins og ég skil frumvarpið samkvæmt greinargerðinni þá sækir maður um það einu sinni, þú þarft ekki að gera það en þú getur það, átt rétt á því í staðinn fyrir að vera sífellt að endurnýja. Annaðhvort nýtir maður sér þetta eða ekki en hefur alltaf rétt á því að endurnýja þetta, sama hvort þú ert fimm ára eða hvað. Þetta er til staðar, þetta þýðir í rauninni bara að ef maður ætlar að nýta kosningarréttinn þá þarf ekki að sækja um hann aftur og aftur, sem er bara aukin stjórnsýsla. Maður sækir um það einu sinni og hefur þá réttinn. Í rauninni breytir þetta engu um það sem hv. þingmaður Inga Sæland er að nefna hvað varðar það að einstaklingur gæti alltaf aftur komist inn á kjörskrá, jafnvel þó að hann hafi ekki búið hér í mjög langan tíma. En þetta þýðir bara minni stjórnsýsla.

Það er mismunandi fyrirkomulag um skyldur eða réttindi fólks til að kjósa. Á Íslandi hefur maður rétt til að kjósa en er ekki skyldugur til þess. Í Bandaríkjunum er fyrirkomulagið tiltölulega letjandi, maður verður að skrá sig til að kjósa þar, skrá sig fyrir fram ef maður ætlar að fá að kjósa. Og ef maður skráir sig er maður jafnframt kominn á lista yfir þá sem gætu verið kallaðir í kviðdóm. Ef maður lendir í því að sitja í kviðdómi þá vitum við það að efnalítið fólk hefur hreinlega ekki efni á því, það missir vinnuna og það riðlar öllu þeirra lífi. Þarna ertu með fyrirkomulag sem í rauninni letur þá sem eru í félagslega verri stöðu til að skrá sig og taka þátt í kosningum. Þannig eru Bandaríkin, Ísland er svona millibilið, síðan er það víða í Suður-Ameríku þannig að maður verður að kjósa. Ef maður kýs ekki þá er maður sektaður, jafnvel þó að maður búi erlendis. Þetta er spurning um hvernig menn nálgast þessi réttindi eða skyldur borgaranna til að taka þátt í stjórnmálum.